Alene Tchourumoff, yfirvaraforstjóri samfélagsþróunar hjá Seðlabanka Minneapolis, segir verðbólgulækkun ekki töfralausn fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. Hún segir suma Bandaríkjamenn í hennar umdæmi vinna tvöfaldar vinnuvikur til að ná endum saman þrátt fyrir batnandi efnahagsástand.
Fyrir rúmum mánuði síðan var blaðamanni Viðskiptablaðsins boðið í heimsókn til Seðlabanka Minneapolis í Minnesota-ríki en seðlabankakerfi Bandaríkjanna skiptist upp í 12 umdæmi. Skrifstofan í Minneapolis sér um níunda umdæmið sem nær yfir Minnesota, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta, Montana og hluta af Wisconsin og Michigan.
„Þegar bandaríska þingið bjó til seðlabankakerfið okkar þá fannst þeim mjög mikilvægt að hafa fulltrúa um allt land. Við erum með tólf mismunandi seðlabanka og gegna þeir allir mismunandi hlutverkum fyrir þeirra umdæmi og með notkun seðlabankakerfisins getum við séð hvernig samfélögin eru að standa sig efnahagslega séð,“ segir Alene.
Seðlabankarnir tólf hafa hvert og einn seðlabankastjóra sem samþykktur er af stjórnendum bankanna. Í Washington DC er hins vegar seðlabankastjórinn skipaður af forseta Bandaríkjanna og er síðan staðfestur af öldungadeild Bandaríkjanna.
„Í þróunarverkefnum okkar erum við mjög oft í nánu samstarfi við hina seðlabankana vegna þess að vandamálin geta oft verið mjög svipuð, sérstaklega þegar kemur að lágtekjuhópum og húsnæðismálum.“
Líkt og á Íslandi þá hefur verðbólga einnig verið mikið til umræðu hjá samstarfsfólki Alene en verðbólgan í Bandaríkjunum er nú 3,1%. Í fyrrasumar var verðbólgan 4% en verðbólga í Minneapolis var hins vegar 1,8% og var hún þá sú lægsta í Bandaríkjunum.
Ein helsta ástæða fyrir þessari lækkun var mikið átak í húsnæðismálum en tvíburaborgirnar Minneapolis og St. Paul hafa lagt mikla áherslu á að byggja meira húsnæði og ódýrara húsnæði, jafnvel fyrir heimsfaraldur. Síðan 2018 hefur borgarstjórn Minneapolis veitt meira en 320 milljónum dala í leiguaðstoð og þróunarstyrki.
Árið 2022 voru svo gefin út leyfi til að byggja 21.000 ný húsnæði á Minneapolis-svæðinu, þar með talið íbúðir og tvíbýli.
„Ég myndi segja að húsnæðiskostnaðurinn hafi ekki hækkað eins mikið í Minnesota samanborið við önnur ríki. Hins vegar ef þú býrð hérna þá finnst þér ekki eins og verðin séu lægri. Íbúðarverð fyrir fyrstu kaupendur er enn mun hærra núna en það var fyrir nokkrum árum og það er erfiðara fyrir fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Þannig þessar tölur líta vel út á blaði en það þýðir ekki þar með sagt að þær skili sér aftur til fólksins.“
Hún segir seðlabankann leggja mikið upp úr því að viðhalda samskiptum við íbúa í umdæminu en Alene hefur talað við marga sem hafa neyðst til að breyta kaupvenjum sínum og eru sérstaklega viðkvæmir þegar kemur að efnahagsbreytingum.
„Þegar bensínverð voru sérstaklega há fóru margir að endurhugsa ferðavenjur sínar. Þau slepptu því til dæmis að fara í bíltúra til að heimsækja ömmu eða hættu við að taka við nýju starfi því það tók 40 mínútur að keyra þangað. Þau hugsuðu kannski með sér að það væri betra að vinna í 20 mínútna fjarlægð, jafnvel þótt launin væru ekki eins há.“
Alene segir að margir þættir hafi spilað inn í verðbólgumynstur Minneapolis. Heimilin þar borga til að mynda minna fyrir gasverð til að hita húsin sín og er matvælaverðbólga örlítið minni en á landsvísu, en segir þó að verðið sé enn of hátt fyrir marga.
„Sumt af því fólki sem við tölum við vinna 70 til 80 klukkustundir á viku bara til að geta náð endum saman. Fyrir þá hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir öllum verðbólguhækkunum þá er heldur ekkert sérstaklega huggandi að heyra að húsnæðisverðbólgan hér sé lægri en annars staðar, því þau finna í raun ekki fyrir því.“
Viðtalið við Alene Tchourumoff fór fram miðvikudaginn 29. nóvember sl. og eru viðhorf varaforstjórans ekki endilega þau sömu og viðhorf Seðlabanka Bandaríkjanna.