Fjármálaráðuneytið og félagið Lindarhvoll sem hýst er í ráðuneytinu, hafa í ár átt í bréfaskriftum við forsætisnefnd Alþingis þar sem því er andmælt að Viðskiptablaðið fái afhent greinargerð setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols frá árinu 2018. Forsætisnefnd hugðist afhenda greinargerðina í apríl, en þá var ár síðan nefndin fékk óháð lögfræðiálit um að afhenda bæri greinagerðina eftir að búið væri að afná upplýsingar sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt með vísan til fjárhagslegra upplýsinga um aðila sem þar koma fyrir.
Í bréfaskriftunum hafa Lindarhvoll og fjármálaráðuneytið hins vegar ekki svarð forsætisnefndar efnislega um hvað fara eigi leynt í greinargerðinni samkvæmt afriti af bréfaskriftunum sem Viðskiptablaðið fékk afhent afrit af. Ráðuneytið hefur fremur lagt áherslu á, líkt og starfandi ríkisendurskoðandi, Guðmundur B. Helgason, að forsætisnefnd beri ekki að afhenda greinargerðina hvað sem hinu óháða lögfræðiáliti til nefndarinnar líður.
Engöngu aðgengileg í sérstöku lesrými
Töluverð leynd hefur ríkt um greinargerðina sem Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols ritaði. Nefndarmenn forsætisnefndar fengu til að mynda aðeins að greinargerðinni í trúnaði í sérstöku lesrými Alþingis fyrr á þessu ári við meðferð gagnabeiðnar Viðskiptablaðsins.
Upplýsingabeiðni Viðskiptablaðsins var rædd á fimmtán fundum forsætisnefndar Alþingis á þessu ári og í fyrra, en samkvæmt fundargerðunum hafði Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, lagt töluverða áherslu á að stjórnskipunar- og eftirlitsinsnefnd fengi einnig afrit af greinargerðinni enda hefði hún endanlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol til umfjöllunar.
Hélt utan um 200 milljarða ríkiseignir
Lindarhvoll var félag sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stofnaði árið 2016 til að sjá um og selja eignir sem ríkinu féllu í skaut eftir samninga við slitabú föllnu bankanna aðra en hlutabréf í Íslandsbanka sem Bankasýslu ríkisins var falið að annast. Bókfært virði eigna í umsýslu Lindarhvols nam um 200 milljörðum króna. Þar sem Þórhallur Arason, þáverandi stjórnarformaður Lindarhvols, er bróður Sveins Arasonar, þáverandi ríkisendurskoðandans, var Sigurður Þórðarson, ríkisendurskoðandi áranna 1992-2008, skipaður settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols. Í byrjun árs 2018 tilkynnti Lindarhvoll að ráðstöfun eigna væri lokið og að félaginu yrði slitið, sem þó hefur enn ekki komið til framkvæmda.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði