Stjórn Sýnar hf. hefur boðað til hluthafafundar sem haldinn verður fimmtudaginn 20. október 2022 klukkan 10:00 í höfuðstöðvum félagsins að Suðurlandsbraut 8, 108, Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þrír hluthafar sem fara með samtals 10,18% eignarhlut í Sýn, óskuðu eftir því í byrjun vikunnar að boðað yrði til hluthafafundar í félaginu. Kröfðust hluthafarnir að á fundinum yrði tekin fyrir tillaga þeirra um stjórnarkjör.
„Tillagan felur í sér tvennt að mati stjórnar Sýnar hf.; að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður, og að kjörinn verði ný stjórn ef fyrri tillagan verður samþykkt.“
Í tilkynningu segir að dagskrá fundarins verði með eftirfarandi hætti:
- Tillaga um að bundinn verði endir á kjörtímabil sitjandi stjórnar félagsins.
- Með fyrirvara um að tillaga undir tölulið 1. hér að framan verði samþykkt, fer fram stjórnarkjör.
- Önnur mál.
Hluthafarnir sem um ræðir eru eftirfarandi:
- Fasti ehf., sem skráð er fyrir 20.650.000 hlutum í Sýn hf.;
- Tækifæri ehf., sem skráð er fyrir 6.015.462 hlutum í Sýn hf.; og
- Borgarlind ehf., sem skráð er fyrr 650.000 hlutum í Sýn hf.
Fasti ehf. er í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur. Hjónin eiga meirihluta í verktakafyrirtækinu Reir Verk.
Tækifæri ehf. er í eigu Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, en félagið var stofnað í mars síðastliðnum. Arnar Már starfar sem endurskoðandi hjá Rýni endurskoðun og var áður fjármálastjóri fjárfestingafélagsins Atorku á árunum 2007-2009. Trausti Ágústsson er stjórnarformaður og hluthafi vátryggingamiðlunarinnar Tryggingar og ráðgjöf, sem hefur meðal annars séð um sölu á tryggingum frá Novis hér á ldni.
Borgarlind ehf. er í eigu Stefáns Más Stefánssonar.