Gengi bréfa allra félaga nema tveggja lækkaði á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Þá lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 1,5% í viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 2672 stigum. Hefur hún lækkað um 7,3% á undanförnum tveimur vikum og um 21% frá áramótum.

Fjarskiptafélagið Sýn leiddi lækkanir á markaði, eins og í gær. Lækkaði gengi bréfa félagsins um 4,6% í 15 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 8,75% í vikunni.

Eimskip lækkaði næst mest allra félaga, um 3,4% í 90 milljóna viðskiptum. Þá lækkaði gengi bréfa í Nova, Iceland Seafood og Síldarvinnslunni um meira en 2%.

Eina félagið sem hækkaði var Ölgerðin, um tæpt prósent í 30 milljóna viðskiptum. Gengi Haga stóð í stað.

Heildarvelta á markaði var fremur lítil, eða um 1,8 milljarðar króna. Þar af var mest velta með bréf Festi, eða um 242 milljónir króna.