Gengi einungis tveggja félaga hækkaði í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar, Festi um tæpt eitt prósent og Kvika um hálft prósent. Hins vegar lækkaði gengi fimmtán félaga á aðalmarkaði og stóð gengi sex félaga í stað.
OMXI10 úrvalsvísitalan hefur lækkað um 20% frá áramótum og stendur í rúmlega 2.700 stigum.
Fjarskiptafélagið Sýn lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 3,7% í rúmlega 30 milljón króna viðskiptum. Hagar lækkaði um rúm tvö prósent í 170 milljóna viðskiptum. Heildarvelta á markaði nam 2,6 milljörðum króna. Þar af var mest velta með bréf Origo og námu viðskipti með bréfin 358 milljónum króna.
Á First North lækkaði Sláturfélag Suðurlands um tæp 40% í milljón króna viðskiptum. Play lækkaði auk þess um rúmlega eitt prósent í 11 milljóna viðskiptum.