Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækin Deloitte og EY á Íslandi tilkynntu á miðvikudaginn um að viðræður stæðu yfir um sameiningu á starfsemi fyrirtækjanna undir merki Deloitte með fyrirvara um gerð áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Forviðræður við eftirlitið eru yfirstandandi.

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, segir að viðræður hafi staðið yfir í nokkra mánuði. Spurður um hvaða tækifæri felast í sameiningu þá nefnir hann einkum vöxt í ráðgjafarstarfsemi félagsins.

„Við höfum verið að einblína mikið á ráðgjöfina og sjáum enn frekari tækifæri á því sviði. Fyrirtækin í landinu eru að leitast eftir aukinni og ítarlegri þjónustu,“ svarar Þorsteinn og bætir við að horft sé til þess að auka sérfræðiþekkingu og dýpt í ráðgjafar‏þjónustunni. „Endurskoðunarmarkaðurinn á Íslandi er ekki mjög stór. Stærsti hluti okkar veltu er í ráðgjöfinni og þar sjáum við vaxtartækifærin.“

Velta Deloitte á Íslandi hafa aukist töluvert á undanförnum árum. Rekstrartekjur félagsins námu tæplega 5,6 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári sem lauk 31. maí 2022. Tekjur félagsins jukust um 11% á milli ára og hafa aukist um meira en helming á fimm árum.

Deloitte hefur markvisst aukið áherslu á að útvíkka þjónustu sina, m.a. þegar kemur að áhætturáðgjöf, fjármálaráðgjöf, stjórnendaráðgjöf auk skatta- og lögfræðiráðgjafar. Árið 2016 keypti Deloitte fyrirtækin Staka og Talenta af Símanum til að styðja við ráðgjöf á sviði upplýsingatækni.

„Við höfum undanfarin ár horft bæði á innri og ytri vöxt, hvernig við getum gert enn betur og ýtt undir þær styrku stoðir sem við erum með. Við höfum verið opin fyrir tækifærum um hvernig við getum vaxið frekar í ráðgjöf.“

Deloitte mun bráðlega yfirgefa Turninn í Kópavoginum og flytja höfuðstöðvar sínar í nýtt skrifstofuhúsnæði að Dalvegi 30.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.