Verð á gulli er nú í hæstu hæðum. Seðlabanki Íslands á nokkur hundruð kíló af gulli sem geymt er í öruggum fjárgeymslum Englandsbanka í London. Frá áramótum hefur virði íslenska gullforðans aukist um 7,4 milljarða króna eða úr 23,1 milljarði í 30,5.

Samtals á Seðlabanki Íslands um það bil tæplega tvö tonn af gulli, sem er lítið í samanburði við flest hinna Norðurlandanna, bæði sem hlutfall af gjaldeyrisforða og í kílóum talið. Undantekningin er Seðlabanki Noregs, sem árið 2004 seldi allt sitt gull en norsk stjórnvöld hafa einbeitt sér að öðrum fjárfestingarkostum, að stærstum hluta í gegnum norska olíusjóðinn.

Sænski seðlabankinn ber höfuð og herðar yfir banka hinna Norðurlandanna þegar kemur að gulleign. Sænski bankinn á um það bil 125 tonn af gulli, sem er um það bil 15% af gjaldeyrisforða hans. Danski seðlabankinn á um 67 tonn, sem er á bilinu 10 til 15% af gjaldeyrisforða bankans og Finnar eiga um 49 tonn, sem er á bilinu 8 til 10% af finnska gjaldeyrisforðanum.

Danski seðlabankinn geymir allt sitt gull í Englandsbanka. Sænski seðlabankinn geymir um það bil helming gullforðans í Englandsbanka en árið 2023 hófu þeir að flytja hluta af gullinu heim til Svíþjóðar. Finnski seðlabankinn geymir einnig hluta af gullforða sínum í Englandsbanka en hefur einnig gull í sínum fjárgeymslum.

400 þúsund gullstangir

Samkvæmt upplýsingum á vef Englandsbanka þá er bankinn með um 400 þúsund gullstangir í sinni vörslu. Hver þeirra vegur um 12,4 kíló, sem þýðir að í bankanum eru um 5 þúsund tonn af gulli. Bankinn geymir gull fyrir um þrjátíu ríki og stofnanir. Einungis meira gull er geymt í fjárgeymslum Seðlabanka Bandaríkjanna í New York (e. Federal Reserve Bank í New York) en þar eru yfir 500 þúsund gullstangir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.