Stofnendur Intuens eru Torfi G. Yngvason, Ólafur Gauti Guðmundsson, Hallgrímur Axel Tulinius og Steinunn Erla Thorlacius, sem er jafnframt geislafræðingur og framkvæmdastjóri Intuens.

Intuens nýtir nýjustu segulómtækni, gervigreind og tölvugreiningar frá Philips til að gefa yfirgripsmikið yfirlit um ástand líkamans, og varpa ljósi á ýmsa kvilla og sjúkdóma. Eins og staðan er í dag eru þau með eitt tæki en annað er á leiðinni.

Intuens bætist í hóp örfárra fyrirtækja á heimsvísu sem bjóða upp á heilskimun.
Intuens bætist í hóp örfárra fyrirtækja á heimsvísu sem bjóða upp á heilskimun.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í upphafi horfðu þau mikið til fyrirtækisins Prenuvo í Bandaríkjunum en þar að auki eru örfá önnur sambærileg fyrirtæki í heiminum, þar á meðal eitt í Svíþjóð og eitt í Danmörku. Fljótlega þróaðist hugmyndin úr því að aðstoða við rannsóknir til að stytta biðlista í það að skoða málið í víðara samhengi.

„Við vitum það að ótal sjúkdómar sem eru mjög hættulegir eru einkennalausir á fyrstu stigum og það er stigið sem við myndum vilja finna þá á. Það dregur þá úr íþyngjandi meðferðum, eykur lífsgæði þeirra sem fá sjúkdóminn, það er auðveldara að lækna hann, það er ódýrara að lækna hann. Gróft dæmi er að við bíðum ekki eftir því að tennurnar detti úr okkur, við förum til tannlæknis,“ segir Torfi.

„Ég bara skildi það ekki, og ég skil það ekki enn, hvernig við ætlum að takast á við framtíðina í heilbrigðiskerfinu ef við ætlum að bíða eftir því að allir fái einkenni.“

Framarlega í Evrópu

Torfi segist upplifa að við séum á krossgötum en við lifum á tíma þar sem gervigreind og tæknin, meðal annars, bjóði upp á ótal möguleika en jafnframt séu áskoranir til staðar.

„Við erum ótrúlega framarlega í Evrópu, þetta er ekki til í Noregi, það er ein svona stöð í Danmörku og ein eða tvær í Bretlandi, ein í Svíþjóð, þannig að þetta er ekki orðið almennt. Það þýðir náttúrulega að við erum að ríða á vaðið í einhverju sem er allt öðruvísi.“

Tækið getur greint yfir 400 sjúkdóma og kvilla, svo sem krabbamein, blóðtappa, Alzheimer, MS, endómetríósu, stoðkerfisvandamál og sýkingar. Þar að auki er hægt að greina ákveðna lífsstílssjúkdóma sem hægt sé að laga á tiltölulega einfaldan hátt með breyttu mataræði, hreyfingu og breyttri líkamsstöðu.

„Allt sem tengist myndgreiningu, það er framtíðin. Fólk vill vita meira og meira um sig og geta tekið sjálfstæða ákvörðun um það hvort það geti breytt einhverju varðandi það að lifa sínu besta lífi. Þá er svo mikilvægt að þekkja sinn eigin líkama og vita hvað er í gangi,“ segir Steinunn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.