TDK Foil Iceland, sem rekur aflþynnuverksmiðju á Akureyri, tapaði ríflega 4,5 milljónum evra – ígildi 655 milljóna króna á gengi þess tíma – á síðasta rekstrarári sem lauk í lok mars, sem er 31% samdráttur frá 946 milljóna tapi árið áður.

Heildartekjur námu 11,3 milljörðum króna og jukust um 12,4% milli ára og framlegð 857 milljónum og jókst um 14,2%. Rekstrarkostnaður nam 414 milljónum og jókst um 5%, en afskriftir 290 milljónum og tæplega tvöfölduðust milli ára.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta féll því um fjórðung milli ára og nam 153 milljónum. Á móti lækkuðu hins vegar fjármagnsgjöld um 30% eða 341 milljón króna milli ára, en þar munaði mestu um lægri vaxtagjöld af fjármögnunarleigu og mun minni neikvæðan gengismun, 35 milljónir í stað 162.

Heildareignir í lok tímabils námu 8,2 milljörðum og jukust um 30% milli ára en skuldir jukust um fimmtung í 11,8 milljarða og eigið fé var því neikvætt um 3,6 og stóð svo gott sem í stað.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að vegna samdráttar í pöntunum sé nú fyrirhugað að draga úr framleiðslugetu til að vera í samræmi við sölu og til að auka ekki birgðir.