Þegar ársreikningar Hampiðjunnar eru skoðaðir sést að félagið hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár.
Í dag hlaut fyrirtækið og Hjörtur Erlendsson forstjóri þess Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.
Tekjurnar Hampiðjunnar rúmlega þrefölduðust milli áranna 2014 til 2021. Þær fóru úr 54 milljónum evra í tæplega 173. Á sama tímabili hafa eignir fjórfaldast. Árið 2014 námu þær 95 milljónum evra en um síðustu áramót voru þær komnar í 273 milljónir. Árið 2014 skilaði félagið 7,7 milljóna evra hagnaði en árið 2021 var hagnaðurinn um 17 milljónir evra.
Tekjur Hampiðjunnar tóku mikinn kipp á milli áranna 2015 og 2016 og skýringin á því eru kaup félagsins á fyrirtækjasamstæðunni P/f Vón í Færeyjum. Með kaupunum tvöfaldaðist velta Hampiðjunnar og fyrirtækjum innan samstæðunnar fjölgaði um 11.
„Við kaupum Vónina í byrjun árs 2016,“ segir Hjörtur. „Á þeim tíma var Vónin álíka stór og Hampiðjan hvað veltu varðar. Vónin er og var fyrst og fremst keðja netaverkstæða og ekki með eigin grunnframleiðslu. Vónin passaði því ótrúlega vel við okkar rekstur.
Það sem við höfum gert síðan er að við höfum bæði stofnað fjögur fyrirtæki og keypt sex önnur. Þannig höfum við náð að byggja veltuna upp. Vónin er stærsta fyrirtækið sem við höfum keypt til þessa en það mun breytast leggi samkeppnisyfirvöld blessun sína yfir kaupin á norska fyrirtækinu Mørenot, en kaupsamningur var undirritaður í nóvember.“
Viðtal við Hjört birtist í tímaritinu Áramótum, sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.