Happdrætti Háskóla Íslands, HHÍ, hagnaðist um 1.590 milljónir króna árið 2022 samanborið við 1.407 milljónir árið áður sem samsvarar 13% aukningu milli ára. Ársreikningur félagsins var birtur á heimasíðu HHÍ á dögunum.
HHÍ, sem er í eigu Háskóla Íslands (HÍ), rekur flokkahappdrætti, skjávélahappdrætti undir heitinu Gullnáman og skafmiðahappdrætti undir heitinu Happaþrennan.
Rekstrartekjur HHÍ námu 11,6 milljörðum króna árið 2022 sem er 2,8 milljarða aukning frá fyrra ári. Hreinar happdrættistekjur, þ.e. rekstrartekjur að frádregnum greiddum vinningum, jukust úr 2,7 milljörðum í 3,6 milljarða króna milli ára. Þá jókst rekstrarhagnaður (EBIT) úr tæplega 1,2 milljörðum í 1,8 milljarða milli ára.
Í skýrslu stjórnar segir að sóttvarnaraðgerðir í Covid-faraldrinum höfðu umtalsverð áhrif á rekstur HHÍ á árunum 2020 og 2021, sérstaklega á rekstur Gullnámunnar. Í upphafi árs 2022 var Gullnáman lokuð í tvær vikur og fram að endalokum Covid-aðgerða í lok febrúar það ár var aðeins helmingur véla hennar opinn.
Hagnaði HHÍ er ráðstafað til að reisa byggingar á vegum HÍ, viðhalda þeim og til tækjakaupa. Á árinu 2022 var ráðstafað 775 milljónum króna til HÍ samanborið við 940 milljónum króna árið áður. Jafnframt greiðir HHÍ árlegt leyfisgjald í Ríkissjóð, 150 milljónar króna, sem rennur til innviðarsjóðs Rannís.
Lykiltölur / HHÍ
2021 |
8.810 |
2.714 |
1.182 |
1.407 |
5.296 |
3.498 |
Nýtt smáforrit
HHÍ gaf nýlega út smáforrið Happið. Í skýrslu stjórnar segir að Happið eigi að styðja við aukna skilvirni í rekstri og auka öryggi viðskiptavina. Jafnframt verði innleitt rafrænt spilakort til stuðnings þeim sem eiga við spilavanda að etja og þjónar kröfum eftirlitsaðila þar sem boðið er upp á varnir gegn peningaþvætti.
Einnig er minnst á starfshóp sem dómsmálaráðherra skipaði í mars 2021 sem fékk það hlutverk að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála. Í ársbyrjun 2023 voru niðurstöður kynntar, sem formaður og starfsmaður starfshópsins stóðu þó einir að þar sem ekki náðist samstaða um efni skýrslunnar. Dómsmálaráðherra hefur ekki tilkynnt um hvert framhald málsins verði.
„HHÍ leggur áherslu á að allar breytingar á happdrættismarkaði verði skoðaðar með heildrænum hætti. Hvers kyns takmarkanir á starfsemi Gullnámunnar og mögulegar breytingar á umgjörð happdrættismarkaðarins geta haft veruleg áhrif á tekjuöflun og afkomu HHÍ,“ segja stjórn og forstjóri HHÍ í ársreikningnum.