Tesla tilkynnti í morgun um verðlækkanir á Model Y og Model 3 bifreiðunum hér á landi. Rafbílaframleiðandinn lækkaði síðast verð á umræddum bifreiðum í maí síðastliðnum sem Viðskiptablaðið greindi frá.
Ódýrasta útgáfan af Model 3 bílnum lækkar um 6,3% og kostar nú 5.990 þúsund krónur samanborið við 6.390 þúsund krónur eftir verðlækkun rafbílaframleiðandans í maí. Sé tekið tillit til rafbílastyrks Orkusjóðs kostar ódýrasta útgáfan af Model 3 núna 5.090 þúsund krónur.
Verð á Model Y jepplingnum, sem var langvinsælasti bíllinn á íslenska bílamarkaðnum í fyrra, kostar nú allt frá 6.890 þúsund krónum. Ódýrasta útgáfan af Model Y lækkar um 2,9% en hún kostaði áður 7.095 þúsund krónur.
Að frádregnum 900 þúsund króna rafbílastyrk úr Orkusjóði, sem Tesla bifreiðarnar uppfylla skilyrði um, þá kostar ódýrasta útgáfan af Model Y um 5.990 þúsund krónur.
Ný tegund af Model 3 kynnt
Tesla kynnti í dag nýja viðbót við Model 3 línuna í Evrópu, Long Rang-útgáfu með afturhjóladrifi. Model 3 Long Range með afturhjóladrifi er nú í boði á Íslandi frá 6.690 þúsund krónum eða 5.790 þúsund krónum að frádregnum rafbílastyrk Orkusjóðs.
Bíllinn er með 702 km drægni (WLTP) og notar 12.5 kWh/100 km og er því með meiri drægni en aðrar týpur af Model 3 „ásamt því að vera sparneytnasti bílinn sem Tesla hefur framleitt til þessa“, að því er segir í tilkynningu.
Afhending á Model 3 Long Range með afturhjóladrifi til viðskiptavina Telsa í Evrópu hefst í nóvember.