Sprotafyrirtækið Garden.io, lauk nýlega um tveggja milljarða króna hlutafjármögnun sem  leidd var af bandarísku fjárfestingarfélögunum 468 Capital og Sorenson Ventures.

Garden var stofnað fyrir fjórum árum í Berlín af þeim Jóni Eðvaldi Vignissyni, Þórarni Sigurðssyni og Eyþóri Magnússyni.  Meðal þeirra sem fjárfest hafa í Gardeni á fyrri stigum erum Crowberry Capital, Davíð Helgason, stofnandi Unity, Renaud Visage, stofnandi Eventbrite, Nat Friedman, fyrrverandi forstjóri GitHub, og Olivier Pomel, stofnandi og forstjóri Datadog.

Sjá einnig: Garden sækir tvo milljarða

Garden er annað sprotafyrirtækið sem Jón Eðvald, framkvæmdastjóri félagsins, kemur að kemur að stofnun á. Jón stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið CLARA ásamt Gunnari Hólmsteini Guðmundssyni og fleirum árið 2008. CLARA var selt til bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Jive Software fyrir ríflega milljarð króna árið 2013. „Árið 2008 var orðið sprotafyrirtæki nýyrði á Íslandi og allt umhverfið mikið í mótun.“

Jón segir miklar framfarir hafi orðið í íslenska nýsköpunar- og sprotaumhverfinu síðan þá. Auk þess sé mun meira fé í sprotafjárfestingum á alþjóðavísu. „Fjármagnið sem við fáum núna inn er meira en við seldum CLARA á. Það er miklu meiri peningur í þessum bransa svo að allar upphæðir hafa hækkað. Umhverfið á Íslandi hefur líka breyst mikið til batnaðar og það er t.a.m. mjög gaman að sjá hvað íslenskum sjóðum eins og Crowberry hefur vaxið ásmegin,“ segir Jón.

Þá sé mikill mannauður á Íslandi sem hann vonast til að Garden muni geta nýtt í meira mæli í framtíðinni.

Nánar er fjallað um mál í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .