„Við erum auðvitað alsæl og þakklát með móttökur sem að hafa farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Albert Þór Magnússon en hann er ásamt Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur, eiginkonu sinni, umboðsaðili sænska tískuvörumerkisins GinaTricot á Íslandi.

„Við erum auðvitað alsæl og þakklát með móttökur sem að hafa farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Albert Þór Magnússon en hann er ásamt Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur, eiginkonu sinni, umboðsaðili sænska tískuvörumerkisins GinaTricot á Íslandi.

Vefverslun Gina Tricot á Íslandi var opnuð í mars síðastliðnum en að sögn Alberts var versluninni strax tekið mjög vel og hefur salan þar aukist um 550% frá því að hún byrjaði. Fyrir helgi voru fyrstu verslanirnar síðan opnaðar í Kringlunni og á Glerártorgi.

Albert líkir stemningunni við opnun í Kringlunni við rokktónleika en þau hafi fyrir fram reynt með ýmsum ráðum að áætla fjöldann sem myndi mæta. Þær áætlanir fóru þó út um gluggann, kalla þurfti til auka öryggisgæslu og hleypa þurfti fólki inn í hollum.

Ríflega átta þúsund manns mættu í Kringluna við opnun á fimmtudag.

„Það var fólk sem beið í fjóra og hálfan tíma og það voru örugglega einhverjir lengur, þetta er bara það sem ég veit. En fólki fannst það samt alveg þess virði,“ segir Lóa.

8.100 manns á einu kvöldi

Hjónin hafa nokkra reynslu á þessu sviði en þau opnuðu fyrstu verslun Lindex á Íslandi árið 2011.

Opnun Gina Tricot var þó af annarri stærðargráðu en samkvæmt tölum frá Kringlunni má reikna með að 8.100 manns hafi verið mættir á fimmtudagskvöldinu þegar verslunin var formlega opnuð.

„Ég vissi að það voru margir þarna og ég vissi að þetta var talið í þúsundum en það að geta sagt það að það hafi 8.100 manns mætt aukalega í Kringluna þennan dag þar sem við vorum að opna, þetta er bara engu líkt,“ segir Albert.

Röðin náði út úr dyrum í verslunarmiðstöðinni á Glerártorgi tveimur dögum síðar.
© Aðsend/Aníta Eldjárn (Aðsend/Aníta Eldjárn)

Ekki voru móttökurnar á Akureyri tveimur dögum síðar síðri en röðin náði út úr dyrum verslunarmiðstöðvarinnar á Glerártorgi. Útlit er fyrir að sextán þúsund manns í heild hafi mætt í verslanirnar tvær frá fimmtudegi til sunnudags.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.