Tilnefningarnefnd Festi hefur lagt til að Þórður Már Jóhannesson, fyrrum stjórnarformaður smásölufyrirtækisins, verði kjörinn aftur í stjórn félagsins á aðalfundi þann 6. mars næstkomandi. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar sem birt var í morgun.
Þórður Már, sem var forstjóri Straums fjárfestingabanka á árunum 2001-2006, hóf stjórnarstörf hjá Festi eftir kaup N1 árið 2018. Hann lét af störfum sem stjórnarformaður í janúar 2022.
Brekka Retail, félag í eigu Þórðar Más, fjárfesti í Festi árið 2014 og er í dag meðal tuttugu stærstu hluthafa félagsins með tæplega 2% hlut sem er um 1,2 milljarðar króna að markaðsvirði.
Í rökstuðningi tilnefningarnefndarinnar segir að Þórður Már hafi þekkingu og reynslu af rekstri og virkri fjárhagsskipan, sé langtímafjárfestir í Festi og þekki félagið vel. Jafnframt er minnst á að hann sé meðal 20 stærstu hluthafa félagsins.
Kæmi inn fyrir Magnús
Alls bárust tíu framboð frá tveimur konum og átta körlum í stjórn Festi. Af þessum framboðum voru fjögur frá núverandi stjórnarmönnum.
Þar sem tilnefningarnefndin leggur til að stjórn Festi verði að öðru leyti óbreytt má gera ráð fyrir að Magnús Júlíusson, sem tók sæti í stjórn félagsins á hluthafafundi í júlí 2022, hafi ákveðið að sækjast ekki eftir áframhaldandi stjórnarsetu.
Tilnefningarnefnd Festi leggur til að eftirfarandi einstaklingar verði kjörnir í stjórn félagsins:
- Guðjón Reynisson, stjórnarformaður
- Sigurlína Ingvarsdóttir, varaformaður
- Hjörleifur Pálsson, stjórnarmaður
- Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður
- Þórður Már Jóhannesson
Í tilnefningarnefnd Festi sitja Sigrún Ragna Ólafsdóttir (formaður nefndarinnar), Ólafur Arinbjörn Sigurðsson og Tryggvi Pálsson.
Miklar stjórnendabreytingar í forstjóratíð Ástu
Í skýrslunni segir nefndin að frá því að stjórn Festi réð Ástu S. Fjeldsted sem forstjóra haustið 2022 hafi hún gert umtalsverðar breytingar á stjórnendateymi félagsins.
„Aðeins einn í núverandi sjö manna framkvæmdastjórn hefur gegnt stöðu sinni lengur en tvö ár. Þessi gagngera umbreyting stjórnendateymisins mælir með því að breytingar á stjórn félagsins verði hóflegar að þessu sinni.“
Nefndin segir að Festi og dótturfélög þess starfi á kvikum samkeppnismarkaði. Það feli m.a. í sér að markvissar breytingar geti verið óhjákvæmilegar ef vel á að takast til en hins vegar þurfi að gæta að nauðsynleg þekking og reynsla haldist.