Jarðboranir hafa á undanförnum árum komið upp sér upp búnaði til að geta keyrt þrjá stærstu borana sína á rafmagni, en hægt hefur verið að knýja einn þeirra á rafmagni í meira en áratug. Þessir borar eru með lyftigetu upp á 220-350 tonn sem þýðir að þeir geta borað á allt að 6.000 metra dýpi.
Sveinn Hannesson, forstjóri Jarðborana segir að rafvæðing stærstu boranna sé skynsamleg, sérstaklega þar sem þeir bora gjarnan nálægt orkuverum hér á landi. Því sé oft hagkvæmt fyrir verkkaupa að útvega raforku í verkefnin.
Félagið telur eftir ítarlega greiningu að hið sama gildi ekki endilega um minni bora.
„Ástæðan er sú að litlu borarnir eru oft notaðir til að bora langt frá næsta orkuveri. Þetta geta verið rannsóknarholur upp á fjalli eða við aðrar krefjandi aðstæður. Það gæti reynst erfiðleikum bundið og kostnaðarsamt að leggja rafmagn þangað.
Ef þú ætlar að rafvæða þá að fullu, þá þurfa litlu borarnir mjög mikla orku. Lítill eða millistór bor þarf raforkutengingu til sín sem er um 2-3 MW meðan að 220-350 tonna bor þarf tengingu upp á 4 MW.“

Hann nefnir sem dæmi að fyrirtækið hefði keypt rafmagns loftspressur, en þegar nota átti tækið reyndist ekki vera til orka fyrir borinn. Græjurnar hafa því lítið sem ekkert verið notaðar.
Sveinn segir að þörf sé á praktískri nálgun ef raunverulega á að ná árangri í rafvæðingu. Mikilvægt sé að orkufyrirtækin eigi í virku samtali við borfyrirtækin á markaðnum sem þurfa að leggja út háár fjárhæðir til fjárfestinga í búnaði.
Hann segir að minni borar noti gjarnan um 30% af heildar orkunotkun borverksen loft- og vatnsdælur noti almennt helming eða meira af orkunotkuninni. Með því að skipta um dælur sé í mörgum tilfellum hægt að ná fram 50% af kolefnissparnaðinum við að skipta út bor, fyrir aðeins 10% af kostnaðinum.
Mótaði afstöðu í stóru borútboði OR
Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um niðurstöður útboðs Orkuveitunnar á borun allt að 35 jarðhitahola sem North Tech Drilling vann með 4,6 milljarða tilboði samanborið við tilboð Jarðborana upp á 9,7 milljarða. Gerð var krafa um að notaðir verði rafmagnsborar.
Spurður út í umrætt útboð, segir Sveinn að meðal þess sem mótaði afstöðu Jarðborana hafi verið miklar útboðskröfur um rafmagnsnotkun sem hefðu krafist talsverðra fjárfestinga af hálfu félagsins í nýjum búnaði, auk annarra atriða eins og áhættuskiptingu.
Félagið hafi sett fyrirvara við þessi atriði og látið ítarlega greinargerð fylgja tilboði sínu.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Svein í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn síðasta. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.