Ragnar Páll Dyer, stjórnarmaður í Sýn, hefur keypt 200 þúsund hluti í fjarskipta- og fjölmiðlasamstæðunni. Samkvæmt Kauphallartilkynningu var gengið í viðskiptunum 37,8 krónur og því var kaupverðið um 7,5 milljónir króna.
Ragnar Páll er þriðji stjórnandinn sem kaupir í Sýn á skömmum tíma en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá keypti Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, 315 þúsund hluti í fyrirtækinu í gær. Gengið í viðskiptum Herdísar var 38 krónur á hlut og kaupverðið um 12 milljónir.
Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Sýnar, keypti 300 þúsund hluti í Sýn á genginu 37,8 krónur í síðustu viku og var kaupverðið rúmar 11 milljónir.
Ragnar Páll er framkvæmdastjóri og meðeigandi InfoCapital ehf. sem átti í upphafi mánaðar um 4% beinan eignarhlut í Sýn. InfoCapital er jafnframt stærsti hluthafi Gavia Invest, sem er stærsti hluthafi Sýnar.
Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 20% á árinu en félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í lok apríl. Gengi stendur í 37,4 krónum þegar þetta skrifað og hefur ekki verið lægra í næstum þrjú ár.
Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið birti árshlutauppgjör í byrjun mánaðar en Sýn tapaði 153 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 213 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra.