Þrír Íslendingar voru með yfir þrjá milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Allir eiga það sameiginlegt að vera fyrrverandi útgerðarmenn, en talsvert var um samruna og yfirtökur í sjávarútvegi. Má þar nefna kaup Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar á útgerðunum Bergi og Huginn í Vestmanneyjum. Þetta kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um 100 hæstu fjármagnstekjurnar í fyrra.

Á toppi listans er Björn Erlingur Jónasson, fyrrverandi útgerðarmaður í Ólafsvík, og námu fjármagnstekjur hans á síðasta ári rúmlega 3,13 milljarða króna. En þær tekjur má rekja til sölu á útgerðinni Valafelli til KG Fiskverks.

Næstur á eftir Birni Erlingi kemur Sævald Pálsson, fyrrverandi útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, fjármagnstekjur hans voru litlu lægri eða tæpir 3,12 milljarðar króna. Hann seldi ásamt börnum sínum útgerðina Berg, til Bergs-Hugins.

Þriðji á lista er Ingibergur Þorgeirsson, sem seldi öll sín hlutabréf í Nesfiski til þeirra Þorbjargar Bergsdóttur og Bergþórs Baldvinssonar, sem voru fyrir stærstu hluthafarfélagsins. Fjármagnstekjur Ingibergs námu tæpum 3,1 milljarði á árinu.

Næstur á eftir er Ketill Gunnarsson, fyrrverandi hluthafi í heilsu- og lífsstílsfyrirtækinu Noom Inc. Fjármagnstekjur hans voru um milljarði lægri en þess sem á undan honum kemur eða, rétt rúmir 2 milljarðar króna.  Níu aðrir voru með fjármagnstekjur yfir einum milljarði króna.

Hér að neðan birtist listi yfir þá 25 Íslendinga sem höfðu mestar fjármagnstekjur árið 2021.  Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundaréttargreiðslur.

Fjallað er um þá 100 Íslendinga sem höfðu mestar fjármagnstekjur árið 2021 í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.