Aukið fé þarf inn í rekstur kísilvers PCC á Bakka eftir þungan rekstur undanfarin ár. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins er langt komin og vonast er til að henni ljúki fyrir lok septembermánaðar. Eitt og hálft ár er síðan fjárhagur félagsins var síðast endurskipulagður. Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC á Bakka, segir að ekki sé hægt að tjá sig um það með hvaða hætti að svo stöddu en það verði vonandi kynnt fljótlega.

Þýska félagið PCC SE á 86,5% hlut í kísilverinu á Bakka á móti 13,5% hlut Bakkastakks, fjárfestingarfélags Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða. Bakkastakkur hefur afskrifað stærstan hluta af fjárfestingu sinni í verkefninu. Eigið fé PCC á Bakka var neikvætt um þrjá milljarða króna í lok síðasta árs í kjölfar ríflega sjö milljarða króna taps á árinu 2020. Ríflega milljarðs króna tap var á rekstrinum árið 2019.

Í lok júní á síðasta ári tilkynnti PCC að slökkt yrði á kísilverinu og um 80 manns sagt upp störfum vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Bilanir og rekstrarerfiðleikar höfðu þá sett svip á reksturinn frá gangsetningu í apríl árið 2018. Á meðan á lokuninni stóð var unnið að endurbótum á kísilverinu.

Á þessu ári hefur kísilverð hækkað umtalsvert líkt og aðrar hrávörur. Því var kísilverið gangsett á ný í apríl. Til að byrja með var kveikt á öðrum ofni kísilversins en hinn ofninn var endurræstur í júlí.

Ósjálfbær skuldsetning

Í ársreikningi PCC á Bakka fyrir árið 2020 sem undirritaður var í lok júní kemur fram að náðst hafi að gera nýja skammtímasamninga við marga af stærstu birgjum félagsins og viðræður standi yfir um samninga til lengri tíma. Tekist hafi að draga úr rekstrarkostnaði, sem bæti hag félagsins.

Hins vegar sé enn óljóst hvort jákvætt sjóðsstreymi verði af rekstrinum. Því þurfi að gera breytingar á samsetningu skulda félagsins og unnið sé að því að sækja aukið fjármagn í gegnum lántökur og breytingu á hlutafé félagsins. Gangi það eftir aukist líkur á að sjóðsstreymið verði jákvætt. „Það eru allt aðrar rekstrarforsendur en fyrir nokkrum mánuðum. Framleiðslan gengur vel og verð hefur verið að hækka þannig að það horfir til betri vegar,“ segir Rúnar.

Bakkastakkur, félag Íslandsbanka og lífeyrissjóða, lagði PCC á Bakka til um 2,4 milljarða króna í eigið fé auk 62 milljóna dollara víkjandi skuldabréfaláns, sem nemur tæplega átta milljörðum króna miðað við núverandi gengi, með breytirétti í hlutafé. Stærsti fjármögnunaraðili verkefnisins var þýski bankinn KfW-IPEX. Í lok síðasta árs námu skuldir PCC á Bakka 57 milljörðum króna.

Þar af námu bankalán 27 milljörðum króna, skuld við móðurfélagið PCC SE um 14,6 milljörðum króna og bókfært virði skuldabréfaláns Bakkastakks um 11 milljörðum króna þó að Bakkastakkur bókfæri lánið einungis á ríflega fjóra milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .