Yfirvöld í Nepal hafa bannað kínverska samfélagsmiðilinn TikTok vegna „truflunar á félagslegri sátt“. Ákvörðunin kemur nokkrum dögum eftir að landið kynnti nýja reglugerð sem krefst þess að samfélagsmiðlar setji upp tengiskrifstofur í landinu.
Snjallforritið TikTok hefur í kringum milljarð notenda um allan heim en hefur þegar verið bannað af nokkrum löndum, þar á meðal af Indlandi.
Rekha Sharma, samskipta- og upplýsingatækniráðherra, segir í samtali við fréttamiðilinn BBC að samfélagsmiðillinn hafi dreift skaðlegu efni og bætir við að bannið tæki strax gildi. Fjarskiptayfirvöldum hefur þá verið bent á að framkvæma ákvörðunina.
Háttsettur leiðtogi nepalska þingsins, Gagan Thapa, hefur hins vegar efast um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um bannið. Hann segir þetta vera tilraun til að hefta tjáningarfrelsið og embættismenn ættu frekar að einbeita sér að því að setja reglur á miðlinum.
TikTok hefur verið undir rannsókn hjá yfirvöldum um allan heim vegna áhyggna um að gögnin þær gætu verið send til kínverskra stjórnvalda. Móðurfyrirtæki þess, ByteDance, hefur áður hafnað öllum áskökunum um slíkt.