Thimon de Jong, hollenskur sérfræðingur í áhrifum samfélagsbreytinga á fyrirtæki og markaði, flytur aldamótakynslóðinni þau skilaboð að hún sé ekki lengur næsta kynslóð, heldur sé framtíðin nú Z-kynslóðin sem hegðar sér á margan hátt öðruvísi en sú sem fékk fyrst stafrænu tæknina og samfélagsmiðla í hendurnar.

„Auðvelda skiptingin milli þeirra er sú að aldamótakynslóðin notar Instagram, en Z-kynslóðin notar Snapchat,“ segir Thimon sem var aðalræðumaður á 90 ára afmælisráðstefnu Félags atvinnurekenda sem haldin var í Gamla bíó í síðustu viku.

„Það mætti kannski kenna í brjósti um aldamótakynslóða að hluta því svo lengi var horft til hennar sem framtíðarinnar sem fyrirtæki þyrftu að laga sig að, bæði í markaðssetningu en einnig ráðningum. En það eru þó tvíeggja skilaboð í þessu, því í hina röndina tekur þetta af henni ákveðna pressu.“

Vinnur fyrir alþjóðleg fyrirtæki

Thimon er vinsæll fyrirlesari og ráðgjafi fyrirtækja víða um heim, og má nefna að meðal alþjóðlegra fyrirtækja sem hann hefur unnið með eru Vodafone, Morgan Stanley, Samsung, EY, Tetra Pak, Microsoft, Deloitte og Warner.

Hann hjálpar fyrirtækjum að skilja hvaða áskoranir fyrirtæki þurfi að mæta þegar þau eiga við aldamótakynslóðina sem óðum er að verða vel borgandi viðskiptavinur og stór hluti starfsmanna þeirra.

„Ein af þróuninni sem við sjáum á aldamótakynslóðinni er að tíminn sem þeir eyða hjá hverju fyrirtæki fyrir sig er að styttast. Aldamótakynslóðin hoppar frekar milli starfa en fyrri kynslóðir, þó það sé þróun sem hefur verið að aukast í margar kynslóðir,“ segir Thimon sem segir að algengasta viðmiðunin á aldamótakynslóðinni sé frá 35 ára aldri niður í 23 ára.

„Fyrirtækin reyna að bregðast við þessu með því að reyna að halda í þau með öllum ráðum, til dæmis með því að gefa þeim bestu græjurnar, að bjóða upp á borðtennisborð og grillveislur svo að það sé eins spennandi og hugsast getur að starfa áfram hjá fyrirtækinu. En rannsóknir sína að aldamótakynslóðin eyðir að meðaltali um þremur árum hjá hverju fyrirtæki. Spurð út í ástæður þess er svarið að þau vilji halda áfram að vaxa í starfi og mæta nýjum áskorunum á nýjum stöðum. Svo það sem fyrirtæki ættu heldur að gera er að segja við starfsfólkið, já, það er spennandi að vera hérna, en ef þú vilt fara eftir kannski tvö ár, það er fullkomlega í lagi, en við munum halda sambandinu við þig.“

Thimon segir að þetta snúist um að segja við starfsfólkið að dyrnar séu ávallt opnar til að koma í heimsókn, eða jafnvel taka þátt í grillveislum starfsmanna eða halda sérstakar veislur fyrir fyrrverandi starfsmenn. „Sum fyrirtæki hafa jafnvel komið á fót svokölluðu alumni-neti fyrir fyrrverandi starfsmenn, í anda þess sem á við um útskriftarárganga í bekkjum,“ segir Thimon og telur það mun farsælla fyrir fyrirtæki.

„Þótt það sé kannski ekki opinber starfsmannastefna hjá fyrirtækjum veit ég að sumir mannauðsstjórar sem hafa góðan skilning á hegðunarmynstri aldamótakynslóðarinnar hafa sett upp eins konar starfsmannaskiptanet með öðrum mannauðsstjórum. Þannig segja þeir kannski við starfsmann sem er búinn að vera hjá þeim í þrjú ár að þeir viti um stöðu sem viðkomandi myndi smellpassa í hjá öðru fyrirtæki. Þannig eru starfsmannastjórarnir að henda á milli sín góðum starfsmönnum af aldamótakynslóðinni í von um að halda þeim ánægðum og líklegum til að vaxa í starfi og vilja koma einhvern tímann aftur. Það er orðið mjög sjaldgæft að fólk starfi ævilangt hjá sama fyrirtækinu.“

Mememe kynslóðin á færri systkini

Thimon segir það rétt að aldamótakynslóðin sé töluvert sjálfhverfari en kynslóðirnar á undan. „Hún hefur verið kölluð „mememe“ kynslóðin en það er að mestu leyti vegna þess að fjölskyldur eru að verða sífellt minni, flestir þeirra eru af tveggja barna heimilum,“ segir Thimon og bendir á að ef horft sé til fjölskyldustærðar einni eða tveimur kynslóðum á undan hafi þær verið að jafnaði með fjórum eða fimm börnum.

„Núna erum við með það sem Bandaríkjamenn líkja við að vera í þyrluflugi yfir lífi barnanna í uppeldinu. Einnig er talað um verkefnauppeldi, það er þegar foreldrar líta á uppeldið sem verkefni sem þurfi að skila ákveðnum árangri. Þannig hrúgast athyglin á börnin svo þegar þau koma svo inn á atvinnumarkaðinn eru þau vön því að á þau sé hlustað, jafnvel þótt þau séu ný í starfi.“

Ástæðan fyrir þessu er einnig að mati Thimon sú tækni og búnaður sem kom upp í hendurnar á foreldrum barnanna á tíunda áratugnum til að rekja líf barna sinna frá upphafi. „Með komu starfrænu myndavélarinnar fóru foreldrar að taka upp hvert einasta skref í lífi barna sinna,“ segir Thimon sem segir það því ekki að undra að oft sé talað um sjálfukynslóðina.

„Þegar þau alast upp við þetta er ekkert skrýtið að þau byrja að taka myndir af sjálfum sér. Þau eru vön því að allt líf þeirra hafi verið myndað af foreldrunum svo þegar þau fullorðnast halda þau eðlilega uppteknum hætti.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .