Trefjar í Hafnarfirði annast smíði á botnstykkjum í laxeldisker fyrir First Water en fyrsta afhending fór fram í Þorlákshöfn á dögunum. Óskar Hafnfjörð Auðunsson, forstjóri Trefja, segir verkefnið vera til vitnis um jákvæð áhrif fiskeldisins á önnur fyrirtæki í landinu.
Félögin hafa áður starfað saman en Trefjar, sem stofnað var árið 1978, smíðaði 400 rúmmetra ker fyrir seiðaeldi og 750 rúmmetra fyrir landeldi sem eru daglega í notkun í Þorlákshöfn.
„Uppbygging First Water hefur verið hröð og það er gaman að eiga þátt í verkefni af þessari stærðargráðu. Það er magnað að sjá uppbygginguna í Þorlákshöfn og ekki víst að allir átti sig á stærðunum í þessu verkefni. Smíði fyrir fiskeldi er orðin æ fyrirferðameiri í starfseminni hjá okkur og fer vaxandi,“ segir Óskar.
Í þessum áfanga afhendir félagið fimm mismunandi hluti úr trefjaplasti sem settir eru saman í eitt. Botnstykkið myndar þá nokkurs konar niðurfall sem notað er til að viðhalda hringrás vatnsins og flytja lifandi fisk.
Í sameiginlegri tilkynningu segir að trefjaplast sé ótrúlega endingargott, sterkt, létt og efnaþolið og því kjörið í verkefni sem þessi. „Möguleikarnir til að móta og laga efnið eru endalausir og svo er vert að nefna að trefjaplast hefur mjög lítið kolefnisfótspor miðað við mörg önnur efni, svo sem stál og steypu,“ bætir Óskar við.