Tuttugu ára háskólanemi við háskólann í Suður-Kaliforníu hagnaðist um ríflega 110 milljónir dala eða sem nemur 15 milljörðum króna á viðskiptum með hlutabréf í smásölufyrirtækinu Bed Bath & Beyond (BBBY) eftir að gengi félagsins meira en fjórfaldaðist síðasta mánuðinn, einkum vegna áhuga dagkaupmanna. Financial Times greinir frá.
Jake Freeman, sem leggur stund á nám í hagnýtri stærðfræði og hagfræði, eignaðist nærri 5 milljónir hluti í síðasta mánuði samkvæmt gögnum hjá Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC). Gengi BBBY hafði þá hríðfallið eftir slæm uppgjör sem leiddu til þess að forstjóra fyrirtækisins var sagt upp.
Sjá einnig: Nýjasta jarmhlutabréfið
Freeman keypti 6% hlut í BBBY á genginu 5,5 dölum. Hlutabréfaverð félagsins hefur síðan meira en fjórfaldast í verði og fór yfir 27 dali á hlut á þriðjudaginn en bréfin hafa verið fyrirferðamikil á spjallborði /Wallstreetbets á samfélagsmiðlinum Reddit. Eftir að gengið tók að hækka seldi Freeman hlutabréf fyrir meira en 130 milljónir dala, eða yfir 18 milljarða króna, í gegnum reikninga sína á TD Ameritrade og Interactive Brokers.
„Ég átti svo sannarlega ekki von á svona gífurlegri hækkun,“ er haft eftir Freeman. „Ég bjóst við að þetta myndi koma út í plús á sex mánuðum […] Ég var mjög hissa að þetta hækkað svona hratt.“
Eftir að hafa selt hlut sinn í Bed Bath & Beyond fór hann út að borða með foreldrum sínum í úthverfi New York borgar þar sem þau búa. Degi síðar flaug hann til Los Angeles og sneri aftur á háskólasvæðið.
Fjárfesting Freeman í síðasta mánuði hljóðaði upp á 25 milljónir dala eða um 3,5 milljarða króna. Hann segist hafa safnað þeim fjármunum að mestu leyti frá fjölskyldu og vinum. Hann hefur fjárfest fyrir frænda sinn, sem var áður stjórnandi í lyfjafyrirtæki, í nokkur ár. Þeir byggðu nýlega upp hlut í lyfjafyrirtækinu Mind Medicine. Freeman nefnir einnig að hann hafi starfað sem starfsnemi í nokkur ár hjá vogunarsjóðnum Volaris Capital í New Jersey.
Hlutabréf BBBY hafa lækkað um 16% fyrir opnun markaða í dag, sem fjölmiðlar rekja til tilkynningar um að áhrifafjárfestirinn Ryan Cohen, einn stærsti hluthafi félagsins, hygðist selja allan hlut sinn í smásölufyrirtækinu. Cohen er einnig þekktur fyrir að vera stjórnarformaður Gamestop.