IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, vænta þess að hagnaður í flugiðnaðinum nái 9,8 milljörðum dala í ár en til samanburðar gerði fyrri spá þeirra frá því í desember ráð fyrir að hagnaður í greininni yrði um 4,7 milljarðar dala árið 2023. Ný spá IATA, sem birt var í gær, gerir ráð fyrir að hagnaðarhlutfall í flugiðnaðinum verði 1,2% í ár.
Bættar horfur í flugiðnaðinum eru raktar til nokkurra þátta, þar á meðal að Kína aflétti Covid-samkomutakmörkunum fyrr en búist var við. Þá séu tekjur af fraktflutningum meiri en fyrir faraldurinn þó umfangið sé enn minna. Jafnframt hafi verð á þotueldsneyti þokast aðeins niður þó það sé enn átt að sögn Willie Walsh, framkvæmdastjóra IATA.
IATA áætlar að farþegafjöldi í ár verði um 4,35 milljarðar en til samanburðar var fjöldi ferðamanna árið 2019 um 4,54 milljarðar talsins.
Samtökin spá því að heildartekjur flugfélaga verði um 803 milljarðar dala í ár sem samsvarar 9,7% vexti á milli ára. Til samanburðar námu tekjur flugfélaga samtals um 838 milljörðum dala árið 2019.