Hagnaður VÍS nam 843 milljónum króna á öðrum árs­fjórðungi sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri fyrir­tækisins sem er aukning úr 476 milljónum á sama tíma­bili í fyrra.

Af­koma fé­lagsins af vá­tryggingar­starf­semi dregst hins vegar veru­lega saman á fjórðungnum á milli ára á meðan að af­koma VÍS af fjár­festingum stór­eykst. Sala á Kerecis til Coloplast spilar þar stórt hlut­verk en söluvirði hlutar VÍS í Kerecis var um 2,8 milljarðar króna.

Guð­ný Helga Her­berts­dóttir for­stjóri VÍS segir að fé­lagið sé að breytast í fyrir­tæki á fjár­mála­markaði og spilar sam­eining við Fossa þar stórt hlut­verk.

Af­koma af vá­tryggingar­starf­semi nam 183 milljón króna sem er lækkun úr 460 milljónum árið áður á meðan af­koma af fjár­festingar­starf­semi hækkaði úr 295 milljónum í 1,2 milljarð króna á árs­fjórðungnum.

Ef horft er á fyrri hluta árs tapaði fé­lagið 460 milljónum á vá­tryggingar­starf­semi sinni á meðan af­koma af fjár­festingum nam 2,2 milljörðum. Sam­sett hlut­fall fjórðungsins var 97,2% en var 92,4% árið á undan. Samsett hlutfall á fyrstu sex mánuðum ársins var 103,6% en var 96,2 árið á undan.

Lykiltölur fyrri hluta árs

2023 2022
Hagnaður 1.072 m.kr. 549 m.kr.
Afkoma af vátryggingas. -460 m.kr. 450 m.kr.
Afkoma af fjárfestingum 2.254 m.kr. 501 m.kr.
Samsett hlutfall 103,6% 96,2%
Ávöxtun fjáreigna 5,7% 1,9%
Hluthafar VÍS sam­þykktu kaupin á Fossum fjár­festingar­banka með af­gerandi hætti

„Þetta var tíðinda­mikill fjórðungur í starf­semi fé­lagsins. Hlut­hafar VÍS sam­þykktu kaupin á Fossum fjár­festingar­banka með af­gerandi hætti og SIV eigna­stýring hlaut starfs­leyfi frá Fjár­mála­eftir­liti Seðla­banka Ís­lands sem þýðir að um­breyting fé­lagsins í fyrir­tæki á fjár­mála­markaði er hafin. Sala Kerecis til Colop­last voru stór­tíðindi en VÍS er hlut­hafi í þessu far­sæla ný­sköpunar­fyrir­tæki. Hagnaður fjórðungsins nam 843 milljónum og sam­sett hlut­fall var 97,2%“ segir Guð­ný Helga í upp­gjörinu.

Guðný segir jafn­framt mikil tæki­færi í sam­einingunni en nú liggur fyrir að VÍS verður fyrir­tæki á fjár­mála­markaði með víð­tækar starfs­heimildir og öfluga inn­viði fyrir fram­úr­skarandi fjár­mála­þjónustu.

„Margt hefur á­unnist frá því stjórn kynnti á­form sín um út­víkkun á starf­semi fé­lagsins á aðal­fundi VÍS fyrir tveimur árum. Hlut­hafar hafa nú sam­þykkt veg­ferð fé­lagsins og búið er að leggja grunninn að nýrri sam­stæðu. Kaupin á Fossum fjár­festingar­banka voru háð fyrir­vörum sem nú hefur öllum verið af­létt fyrir utan sam­þykki Fjár­mála­eftir­litsins. Sam­einingin býður upp á spennandi tæki­færi til vaxtar á trygginga- og fjár­mála­markaði,“ segir Guð­ný Helga í upp­gjörinu.

Fjárfestu í Kerecis fyrir 245 milljónir

Guð­ný segir að eigna­markaðir hafi al­mennt vegið þungt í fjórðungnum, en sala Kerecis til danska fyrir­tækisins Colop­last voru stór­tíðindi.

„Vænt sölu­virði hlutar VÍS í Kerecis nemur um 2,8 milljörðum en upp­haf­lega fjár­festingin í Kerecis nam um 245 milljónum. Fjár­festingar­tekjur í fjórðungnum námu rúm­lega 1,3 milljörðum sem gerir 3,0% nafn­á­vöxtun. Fjár­festingar­tekjur það sem af er ári eru um 2,5 milljarðar eða 5,7% nafn­á­vöxtun.“

Fyrstu sjóðirnar fyrir fjárfesta stofnaðir

Þá er greint frá því að SIV eigna­stýring, dóttur­fé­lag VÍS, sem stofnað var á haust­mánuðum 2022, hafi nú hlotið starfs­leyfi frá Fjár­mála­eftir­liti Seðla­banka Ís­lands og hafi stýring fjár­festingar­eigna VÍS nú al­farið færst til fé­lagsins. SIV eigna­stýring mun bjóða upp á sjóði fyrir al­menning og fag­fjár­festa og hafa nú fyrstu sjóðirnir verið stofnaðir.