Hagnaður VÍS nam 843 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samkvæmt árshlutauppgjöri fyrirtækisins sem er aukning úr 476 milljónum á sama tímabili í fyrra.
Afkoma félagsins af vátryggingarstarfsemi dregst hins vegar verulega saman á fjórðungnum á milli ára á meðan að afkoma VÍS af fjárfestingum stóreykst. Sala á Kerecis til Coloplast spilar þar stórt hlutverk en söluvirði hlutar VÍS í Kerecis var um 2,8 milljarðar króna.
Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS segir að félagið sé að breytast í fyrirtæki á fjármálamarkaði og spilar sameining við Fossa þar stórt hlutverk.
Afkoma af vátryggingarstarfsemi nam 183 milljón króna sem er lækkun úr 460 milljónum árið áður á meðan afkoma af fjárfestingarstarfsemi hækkaði úr 295 milljónum í 1,2 milljarð króna á ársfjórðungnum.
Ef horft er á fyrri hluta árs tapaði félagið 460 milljónum á vátryggingarstarfsemi sinni á meðan afkoma af fjárfestingum nam 2,2 milljörðum. Samsett hlutfall fjórðungsins var 97,2% en var 92,4% árið á undan. Samsett hlutfall á fyrstu sex mánuðum ársins var 103,6% en var 96,2 árið á undan.
Lykiltölur fyrri hluta árs
2022 | |||
549 m.kr. | |||
450 m.kr. | |||
501 m.kr. | |||
96,2% | |||
1,9% | |||
Hluthafar VÍS samþykktu kaupin á Fossum fjárfestingarbanka með afgerandi hætti
„Þetta var tíðindamikill fjórðungur í starfsemi félagsins. Hluthafar VÍS samþykktu kaupin á Fossum fjárfestingarbanka með afgerandi hætti og SIV eignastýring hlaut starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem þýðir að umbreyting félagsins í fyrirtæki á fjármálamarkaði er hafin. Sala Kerecis til Coloplast voru stórtíðindi en VÍS er hluthafi í þessu farsæla nýsköpunarfyrirtæki. Hagnaður fjórðungsins nam 843 milljónum og samsett hlutfall var 97,2%“ segir Guðný Helga í uppgjörinu.
Guðný segir jafnframt mikil tækifæri í sameiningunni en nú liggur fyrir að VÍS verður fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir og öfluga innviði fyrir framúrskarandi fjármálaþjónustu.
„Margt hefur áunnist frá því stjórn kynnti áform sín um útvíkkun á starfsemi félagsins á aðalfundi VÍS fyrir tveimur árum. Hluthafar hafa nú samþykkt vegferð félagsins og búið er að leggja grunninn að nýrri samstæðu. Kaupin á Fossum fjárfestingarbanka voru háð fyrirvörum sem nú hefur öllum verið aflétt fyrir utan samþykki Fjármálaeftirlitsins. Sameiningin býður upp á spennandi tækifæri til vaxtar á trygginga- og fjármálamarkaði,“ segir Guðný Helga í uppgjörinu.
Fjárfestu í Kerecis fyrir 245 milljónir
Guðný segir að eignamarkaðir hafi almennt vegið þungt í fjórðungnum, en sala Kerecis til danska fyrirtækisins Coloplast voru stórtíðindi.
„Vænt söluvirði hlutar VÍS í Kerecis nemur um 2,8 milljörðum en upphaflega fjárfestingin í Kerecis nam um 245 milljónum. Fjárfestingartekjur í fjórðungnum námu rúmlega 1,3 milljörðum sem gerir 3,0% nafnávöxtun. Fjárfestingartekjur það sem af er ári eru um 2,5 milljarðar eða 5,7% nafnávöxtun.“
Fyrstu sjóðirnar fyrir fjárfesta stofnaðir
Þá er greint frá því að SIV eignastýring, dótturfélag VÍS, sem stofnað var á haustmánuðum 2022, hafi nú hlotið starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og hafi stýring fjárfestingareigna VÍS nú alfarið færst til félagsins. SIV eignastýring mun bjóða upp á sjóði fyrir almenning og fagfjárfesta og hafa nú fyrstu sjóðirnir verið stofnaðir.