Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins undirbýr nú sölu á eignarhlutum í nokkrum félögum í eignasafni sínu en sjóðurinn reiðir sig á eignasölu til að fjárfesta í nýjum félögum. Óvissa á fjármálamörkuðum gerði það að verkum að ekki var grundvöllur hjá sjóðnum fyrir eignasölu í fyrra.
Örn Viðar Skúlason, fjárfestingarstjóri Nýsköpunarsjóðs, segir að það hafi nokkrum sinnum komið fyrir í 25 ára sögu sjóðsins að hann gat ekki fjárfest í nýjum verkefnum í ákveðinn tíma þar sem erfiðlega gekk að selja eignarhluti vegna krefjandi markaðsaðstæðna.
„Fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja um allan heim hefur harðnað mikið undanfarin tvö ár, m.a. vegna Úkraínustríðsins, umróts í alþjóðlega bankageiranum og lækkana á eignamörkuðum. Mörg sprotafyrirtæki eiga erfitt með að ná í fjármagn, ekki síst félög með áþreifanlega vöru eða þau sem sérhæfa sem sig í tækni sem tekur lengri tíma að þróa og henta því síður vísisjóðum með tilgreindan líftíma. Þar höfum við spilað stórt hlutverk.“
Nýsköpunarsjóður er svokallaður sígrænn sjóður sem felur m.a. í sér að fjárfestingargeta hans veltur alfarið á eignasölu. Sjóðurinn kemur yfirlitt að fjármögnun hjá 1-2 nýjum félögum á ári.
Örn Viðar segir að með sölu í eignasafninu stefni Nýsköpunarsjóður einnig að því að endurtaka yfirstandandi fjárfestingarátak þar sem sjóðurinn mun fjárfesta fyrir um 200 milljónir króna í 10 til 15 nýjum félögum sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Fréttin er hluti af lengra viðtali við Örn Viðar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.