Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra vinna að frumvarpi um tímabundinn stuðning ríkisins til að auðvelda atvinnurekendum í Grindavík til að greiða starfsfólki sínu laun.
Þetta kemur fram í færslu Guðmundar Inga en hann segir eitt mikilvægasta verkefnið núna er að tryggja afkomu og öryggi fólks í Grindavík.
„Mikilvægt er að varðveita ráðningarsambönd atvinnurekenda við starfsfólk sitt á meðan óvissan er jafnmikil og hún er nú. Ég og fjármálaráðherra vinnum nú að frumvarpi um tímabundinn stuðning ríkisins til að auðvelda atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu laun sem vinnur á því svæði sem rýmt hefur verið vegna almannavarnarástands í og við Grindavík,“ skrifar Guðmundur Ingi.
Að sögn Guðmundar var rætt um málið í ríkisstjórn í morgun og unnið er að frumvarpinu í góðu samtali við aðila vinnumarkaðarins.
„Horft verður til reynslunnar af úrræðum frá kórónuveirufaraldrinum. Ég stefni á að frumvarpið verði tilbúið sem fyrst og þannig að viðkomandi atvinnurekendum sé auðveldað að greiða laun um næstu mánaðamót,“ skrifar Guðmundur Ingi.
„Ég hef heyrt í bæjarstjóra Grindavíkur, Fannari Jónassyni, og látið hann vita af þessari framvindu. Ég dáist að æðruleysi Grindvíkinga og samtakamætti þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum. Hugur minn er hjá ykkur Grindvíkingum,“ skrifar Guðmundur Ingi að lokum.
Þá greindi Vinnumálastofnun frá því í dag að komi til þess að launagreiðslur falli niður til starfsmanna fyrirtækja í Grindavík vegna ákvörðunar almannavarna um allsherjarrýmingu geta þeir leitað til Vinnumálastofnunar.
„Öryggisnet atvinnuleysistryggingakerfisins tryggir starfsfólki framfærslu í þeim tilfellum þegar starfsmaður hefur áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta einnig leitað til stofnunarinnar,“ segir í tilkynningu VMS.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.