Mikil verðbólga og hnökrar í aðfangakeðjum hafa skapað ákjósanlegustu aðstæður fyrir vogunarsjóði, sem stunda viðskipti á gjaldeyris- og skuldabréfamörkuðum, síðan í frjámálakrísunni árið 2008.
Kenneth Tropin, stofnandi Graham Capital, sagði í samtali við Financial Times að verðbólgan hafi verið lítil í svo langan tíma að seðlabankar hafi byrjað að vanmeta möguleikann á því að hún færi á stjá aftur og hversu mikil hún gæti orðið.
Hann nefndi einnig að stríðið í Úkraínu og hnökrar í aðfangakeðjunum, sem muni taka langan tíma að greiða úr, hafi ýtt undir óstöðugleika á fjármálamörkuðum. Að auki sagðist hann ekki búast við því að verðbólgan í Bandaríkjunum myndi verða mikið meiri en hún er í dag, en sagði fjárfesta vanmeta það hversu langan tíma það muni taka hana að hjaðna. Að sögn Tropin mun það taka Seðlabankann allt að þrjú ár að ná tökum á verðbólgunni.