Bandaríski verslunarrisinn Amazon segist vera að prufukeyra vélmenni í vöruhúsum sínum. Vélmennið ber nafnið Digit og er með fætur og handleggi sem það notar til að hreyfa sig, grípa og meðhöndla vörur á svipaðan hátt og menn gera.

Amazon segist vera að prufukeyra vélmennin til að geta leyst starfsfólk af hólmi og betur þjónustað viðskiptavini sína.

Verkalýðsfélög hafa sagt að Amazon komi nú þegar fram við starfsfólk sitt eins og vélmenni. „Vélvæðing Amazon er fyrsta skrefið í stórfelldum atvinnumissi. Við höfum þegar séð hundruð starfa hverfa af sömu ástæðu í vöruhúsum fyrirtækisins,“ segir Stuart Richards, leiðtogi breska stéttafélagsins GMB.

Amazon þvertekur fyrir þetta og segir að ákvörðunin muni í raun skapa „hundruð þúsund ný störf“ þar sem mikil þörf gæti myndast fyrir faglært starfsfólk.

Fyrirtækið notast nú þegar við rúmlega 750.000 vélmenni sem vinna samhliða starfsfólki Amazon og sjá yfirleitt um verkefni sem þarf að gera aftur og aftur.

Tye Brady, aðaltæknifræðingur Amazon Robotics, sagði á blaðamannafundi í Seattle að starfsfólk fyrirtækisins yrði aldrei skipt út fyrir vélmenni og þvertók fyrir að Amazon sé að stefna á 100% vélvæðingu í vöruhúsum sínum.

„Það er enginn hluti af mér sem heldur að það yrði nokkurn tíma að veruleika. Fólk er svo mikilvægt í starfsemi okkar. Það þarf hæfileika til að geta hugsað á hærra stigi og hæfileika til að geta greint og leyst vandamál,“ segir Tye.