Greiningardeildir stóru fjárfestingabankanna vestanhafs eru að velta því upp um þessar mundir hvort hlutabréfamarkaðurinn geti hækkað enn frekar á nýju ári.
Hlutabréfaverð bandarískra fyrirtækja er talið fremur hátt í samræmi við veltu og hagnað en S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 28% á árinu.
Að öllu óbreyttu verður þetta því annað árið í röð sem vísitalan hækkar um meira en 20%.
Greiningardeildir JP Morgan Chase, Morgan Stanley og Goldman Sachs spá þó heldur hóflegri hækkunum á næsta ári samkvæmt The Wall Street Journal.
Bankarnir þrír spá þó allir að vísitalan fari yfir 6500 stig fyrir árslok 2025 sem er um 6,7% hækkun frá dagslokagengi föstudagsins sem var 6090 stig.
Ekki eru þó allir bankarnir jafn neikvæðir gagnvart hlutabréfamarkaðinum á nýju ári. Barclays, Bank of Armerica og Deutsche Bank spá því að vísitalan loki árinu 2025 á bilinu 6666 til 7000 stig.
Allir bankarnir eru sammála um að forsetatíð Donald Trump muni hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn en eftir miklar hækkanir síðustu ár er óttast að það sé ekki mikið rými fyrir enn frekari hækkanir.
Yfirvofandi viðskiptastríð Trump með tilheyrandi verðbólguþrýstingi gæti einnig haft neikvæð áhrif.
Samkvæmt WSJ er þó enginn af fyrrnefndum bönkum að spá því að bolamarkaðnum sé að ljúka alveg strax.