Hagfræðideild Landsbankans spáir því að ársverðbólga verði komin niður í 7,8% og Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir 7,7% verðbólgu í júlí á þessu ári. Þetta kemur fram í nýbirtum greiningum frá bönkunum tveimur.
Hagstofan birti verðbólgumælingar í morgun þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 1,31% á milli mánaða, sem var talsvert umfram væntingar greiningaraðila. Verðbólga mældist því 9,9% á ársgrundvelli, borið saman við 9,8% mánuðinn á undan.
Ljósið í myrkrinu er að íbúðamarkaður og flugfargjöld vega þyngst í mælingunni og eru þetta liðir sem gætu gengið tilbaka á næstu mánuðum. - úr greiningu Íslandsbanka.
Hækkun flugfargjalda gangi til baka
Hvað framtíðarhorfur verðbólgu segir í greiningu Íslandsbanka: „Ljósið í myrkrinu er að íbúðamarkaður og flugfargjöld vega þyngst í mælingunni og eru þetta liðir sem gætu gengið tilbaka á næstu mánuðum. Alla jafna hækkar flugverð í mars og apríl og lækkar svo að hluta til í maí. Erfiðara er að festa fingur á stöðunni á íbúðamarkaðinum og sveiflunum þar. En það verður að teljast líklegra en ekki að þessi hækkun muni ganga tilbaka á næstu mánuðum.“
Hagfræðideild Landsbankans spáir sambærilegri þróun: „Við breytum spá okkar um ársverðbólgu til næstu þriggja mánaða örlítið vegna þessara talna. Munurinn á mælingu Hagstofunnar og spá okkar fyrir apríl var meðal annars sú að verð á nýjum bílum lækkaði minna en við gerðum ráð fyrir. Við gerum ennþá ráð fyrir því að verð á nýjum bílum lækki lítillega en það gerist síðar. Við spáum núna að verðbólgan mælist 9,5% í maí, 8,8% í júní og 7,8% í júlí.“
Hér má sjá verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans: