Verðbólga á ársgrundvelli mældist 6,7% eftir að vísitala neysluverðs lækkaði um 0,16% milli mánaða.
Mun það vera mun meiri lækkun en greiningardeildir bankanna höfðu spáð en búast var við því að verðbólga yrði í kringum 7,2-7,3%.
Samkvæmt Hagstofu Íslands hafði niðurfelling á VSK-ívilnun af rafbílum áhrif til hækkunar á verði þeirra en tekið var tillit til rafbílastyrkja Orkusjóðs við útreikninga.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,9% og hafði 0,18% áhrif á vísitöluna. Kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,7% og hafði 0,12% áhrif.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis mældist 5,2%.
„Vetrarútsölur eru víða í gangi og lækkuðu föt og skór um 9,2% (-0,36%) og húsgögn og heimilisbúnaður o. fl. um 5,0% (-0,29%). Einnig lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 11,4% (-0,21%). Athygli skal vakin á þeirri breytingu að í stað þess að taka inn verðbreytingar á „044 Annað vegna húsnæðis“ nú í janúar verður það gert í febrúar þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram. Undir þennan lið fellur sorphreinsun, holræsi og kalt vatn,” segir á vef Hagstofunnar.
Endurskoðun aðferða við mat á húsnæðislið
Á vef Hagstofunnar er greint frá því að Hagstofa Íslands hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs.
„Með betri gögnum um húsaleigu hafa nú skapast forsendur til þess að breyta um aðferð. Það er mat Hagstofunnar að aðferð leiguígilda endurspegli nú betur tilgang mælingarinnar og verður aðferðin innleidd í vísitöluna á vormánuðum. Leiguígildin eru byggð á tölfræðilegu líkani á grundvelli gagna um húsaleigu. Endanleg dagsetning á innleiðingu breytinganna verður birt í mars næstkomandi ásamt greinagerð um málið.”