Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% á milli september og október og hefur nú hækkað um 9,4% á ársgrundvelli. Verðbólgan jókst því um 0,1 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,3%. Verðbólgutölurnar voru yfir spám greiningardeilda Íslandsbanka og Landsbankans.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,65% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,2% á síðastliðnum tólf mánuðum.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að verð á matvælum hafi hækkað um 1,6% á milli mánaða, en þar muni mestu um lambakjöt sem hækkaði um 16,2%. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,8%.
Fyrir tveimur vikum spáði Greining Íslandsbanka því að vísitalan neysluverðs myndi hækka um 0,2% í október sem hefði í för með sér hjöðnun verðbólgunnar úr 9,3% í 8,9%.
Sama dag spáði hagfræðideild Landsbankans 0,3% hækkun vísitölunnar og að verðbólga færi niður í 9,0%. Í kjölfar birtingar á tölum um vísitölu íbúðaverða á höfuðborgarsvæðinu, sem hækkaði um 0,8% í september, færði Landsbankinn verðbólguspá sína upp í 9,2% vegna hækkunar á íbúðaverði.
Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í byrjun mánaðarins. Nefndin hefur hækkað stýrivexti samtals um 3,75 prósentur í ár, úr 2,0% í 5,75%. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði við RÚV í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar að bankinn vonist til að síðasta hækkun hafi verið sú síðasta í vaxtahækkunarferlinu. Næsta boðaða vaxtaákvörðun er þann 23. nóvember næstkomandi.