Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,7%. Verðbólgan lækkar því lítillega á milli mánaða, en hún var 9,9% í júlí. Þá mældist vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,1%.

Verðbólgan jókst meira en greiningardeildir bankanna áttu von á. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,4% á milli mánaða og yrði því 9,9%. Greining Íslandsbanka spáði því að verðbólgan færi upp í 10%% eftir 0,5% mánaðarlega hækkun.

Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 3,5% á milli mánaða og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 6,4%. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 0,9% á milli mánaða. Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 8,7% og verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,9%.

Verðbólgan verði innan vikmarka eftir tvö ár

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað á síðasta fundi að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig og eru vextirnir nú orðnir 5,5%. Nefndin hefur hækkað stýrivexti um samtals 2,75 prósentur í síðustu þremur vaxtaákvörðunum í maí, júní og ágúst, úr 2,75% í 5,5%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun er 5. október.

Samkvæmt könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila sem var framkvæmd dagana 8. til 10. ágúst vænta markaðsaðilar þess að verðbólgan hjaðni á næstu misserum og að hún verði 4% eftir tvö ár, rétt svo innan vikmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Í könnuninni kemur einnig fram að markaðsaðilar búist við því að meginvextir Seðlabankans hækki enn frekar í náinni framtíð og að þeir verði orðnir 6% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.