Jólaréttir IKEA voru bornir fram í veitingasal fyrirtækisins fyrr í þessum mánuði. Veitingastjóri IKEA segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi verið mikið að gera fyrstu helgina en á boðstólnum eru til að mynda hangiskankar, hamborgarahryggur og grænkera-wellington.

Að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins, hefur aðsókn í veitingasal IKEA aukist verulega undanfarin misseri og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Menntaskólanemar virðast orðnir sérstaklega hrifnir af því að fá sér að borða í IKEA og telur Guðný skýringuna á því liggja í annaðhvort matnum eða verðinu, eða jafnvel bæði.

Jón Ingi Einarsson, veitingastjóri IKEA, segir að það hafi alltaf verið stefna fyrirtækisins að halda verðinu lágu, sérstaklega þegar kemur að matnum. Hann segir IKEA reikna reglulega út kostnaðinn á réttunum og eru verðin síðan leiðrétt hvort sem þau fara upp eða niður.

„Við erum frekar stór þannig við semjum alltaf við birgjana okkar og ef það koma verðhækkanir þá reynum við fyrst að finna einhvern flöt á því að lágmarka verðhækkanir hjá okkur. Eftir það er síðan farið út í að skoða verðin. Þannig verðhækkanir eru ekkert endanlegar þó að maður fái tilkynningu um þær.“

Jón segist sjálfur kannast við kostnaðinn að fara með börn út að borða en hann er sjálfur fjölskyldumaður. „Það að fara út að borða er bara orðin ákvörðun. Þetta er í raun bara fjárfesting,“ segir Jón og hlær.

IKEA hefur áður skipt um birgja en Jón segir fyrirtækið virða mjög viðskiptasambandið sem það hefur við sína birgja. Þó að það komi til að mynda annar birgir og bjóði lægra verð þá er IKEA ekki endilega að hoppa á það nema það sé einhver góð saga á bak við og að hægt sé að treysta á birginn fram í tímann, ekki bara í augnablikinu.

„Þetta er líka samstarfsverkefni á milli allrar virðiskeðjunnar, þannig ef einn þarf að hækka þá hækkar allt sem eftir á kemur. En ef þessi eini nær að halda aftur á sér þá eru hinir betri í stakk búnir til að halda aftur af sér líka.“