Samfélagsmiðillinn X, áður þekktur sem Twitter, hefur metið eigið fé sitt á 19 milljarða dali. Þetta kemur fram í minnisblaði fyrirtækisins til starfsmanna en auðjöfurinn Elon Musk keypti miðilinn fyrir ári síðan fyrir rúma 44 milljarða dali.
Samkvæmt minnisblaðinu er fyrirtækið byrjað að úthluta áskriftarréttindum til starfsmanna sinna á gegninu 45 dalir á hlut.
Kaup Musk á Twitter í fyrra voru fjármögnuð með aðstoð bankanna Morgan Stanley, Bank of America, Barclays, MUFG, BNP Paribas, Mizuho og Société Générale. Í umfjöllun Financial Times segir að bankarnir sitji uppi með skuldir tengdum kaupunum.
Samfélagsmiðillinn hefur átt í erfiðleikum með að afla tekna eftir að auglýsendur byrjuðu að yfirgefa X/Twitter. Á þeim tíma þegar Musk keypti miðilinn komu 90% af tekjum Twitter í gegnum auglýsingar en Musk hafði sagst viljað breyta því skipulagi.
Í janúar á þessu ári höfðu meira en 50% af þeim fyrirtækjum sem auglýstu sig á Twitter yfirgefið miðilinn, þar á meðal Coca-Cola, Unilever, Jeep og Wells Fargo. Auglýsendur sögðu á þeim tíma að ákvörðun þeirra væri vegna aukinna áhyggna um skaðlegt efni en Brookings greindi frá því að notkun N-orðsins hafi til að mynda aukist um 500% aðeins 12 klukkustundum eftir kaupin og tíst sem innihéldu orðið „gyðingur“ höfðu fimmfaldast frá því fyrir eignarskiptin.
Þrátt fyrir gífurlega hagræðingu og 80% fækkun á starfsfólki fyrirtækisins, sem nú telja um 1.500, greindi Musk frá því í sumar að fyrirtækið væri enn að tapa gífurlegum fjárhæðum vegna samdráttar á auglýsingamarkaði ásamt þeim skuldum sem X situr nú uppi með.