Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri vinnslu og sölu hjá Matorku, segir í samtali við Viðskiptablaðið að eldgosið muni ekki koma til með að hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Matorka sé þegar búin að færa alla sína starfsemi yfir í Hafnarfjörð.

„Það var mjög mikið mál að færa starfsemina á einni nóttu. Það var gríðarlega mikið álag og keyrsla á fólkið eftir þetta mikla áfall sem við urðum fyrir. Við misstum bæði vinnsluna okkar og skrifstofu, þannig þetta varð mjög erfiður tími en nú erum við komin á góðan stað.“

Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri vinnslu og sölu hjá Matorku, segir í samtali við Viðskiptablaðið að eldgosið muni ekki koma til með að hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækisins. Matorka sé þegar búin að færa alla sína starfsemi yfir í Hafnarfjörð.

„Það var mjög mikið mál að færa starfsemina á einni nóttu. Það var gríðarlega mikið álag og keyrsla á fólkið eftir þetta mikla áfall sem við urðum fyrir. Við misstum bæði vinnsluna okkar og skrifstofu, þannig þetta varð mjög erfiður tími en nú erum við komin á góðan stað.“

Árni segir það jákvætt að nú sé byrjað að gjósa á stað þar sem gosið veldur ekki meiri vandræðum en raun ber vitni í augnablikinu. „Við fylgjumst bara vel með stöðunni og vonum að þetta fari ekki að renna í áttina að Svartsengi.“

Greint var frá því fyrir mánuði síðan að Matorka hafi orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum skjálftanna á Reykjanesi. Árni sagði þá að tvö stór ker hefðu brotnað illa og fyrir vikið hafi mikið af fiski drepist í þeim. Þá hafi tvö ker til viðbótar skemmst töluvert en þar tókst að bjarga fisknum.

Starfsemin var þá í lágmarki þar sem rýming svæðisins gerði allan rekstur mjög erfiðan en hjá Matorku störfuðu þá um 20 manns við eldið og um 25 manns við fiskvinnslu, sölu og útflutning. Árni segir að fyrirtækið hafi þegar misst hluta af starfsfólki sínu vegna rýmingarinnar.

„Það er bara enn eitt áfallið sem fyrirtækið hefur þurft að glíma við. Núna mánuði síðar er allt komið í réttan farveg aftur, en þessi mánuður eftir jarðsigið var einn af þeim verri sem maður hefur lifað.“

Árni segist hins vegar hafa fulla trú á að ástandið muni batna og að það verði blómleg byggð í Grindavík um ókomna tíð. „Við erum náttúrulega í hjartanu Grindvíkingar, þannig við hlustum ekki á svona hjal um að þetta sé komið til að vera eða verði mínus fyrir bæjarfélagið.“

Viðskiptablaðið hefur einnig haft samband við Samherja fiskeldi, en engin starfsemi fer þar fram um þessar mundir. Það fyrirtæki hefur hins vegar ekki orðið fyrir jafn miklum skemmdum og önnur í Grindavík.