Samkvæmt greiningu Hagstofunnar nam verg landsframleiðsla 1.199 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi sem er um 0,5% samdráttur að raunvirði samanborið við sama tíma í fyrra. Samdráttinn má að mestu rekja til lakari afkomu af þjónustuviðskiptum við útlönd.
Á þriðja ársfjórðungi er talið að þjóðarútgjöld hafi aukist um 0,8% að raunvirði samanborið við þriðja ársfjórðung árið 2023. Í greiningu segir að einkaneysla hafi aukist um 0,8%, samneysla um 3,1% og fjármunamyndun um 2,3%.
„Þrátt fyrir að þjónustujöfnuður hafi verið jákvæður um 140 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi var það nokkuð lakari afgangur en á sama tíma árið 2023. Minni afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd hefur þannig neikvæð áhrif á hagvöxt um tæp 2%,“ segir í greiningu.
Einkaneysla jókst um 0,8% á þriðja ársfjórðungi að raunvirði miðað við sama tímabil fyrra árs og vegur hér einna þyngst aukning í neyslu Íslendinga erlendis, eða um 3%.
Þá er áætlað að fjármunamyndun á þriðja ársfjórðungi 2024 hafi aukist að raunvirði um 2,3% miðað við sama tíma í fyrra. Þar af er annars vegar áætluð aukning í fjármunamyndun íbúðarhúsnæðis um 10,7% og fjármunamyndun á vegum hins opinbera um 2,2%.