Hagnaður Rubix Íslands ehf. nam 289 milljónum króna árið 2022 og tvöfaldaðist milli ára, en þar af komu 113 milljónir frá Verkfærasölunni, sem félagið hafði fest kaup á sama ár fyrir ríflega 1,1 milljarð króna.
Velta félagsins nam 3,4 milljörðum og jókst um 17% milli ára, en velta Verkfærasölunnar er þar ekki inni. Rekstrargjöld jukust um þriðjung og námu tæpum 3,2 milljörðum og fjármunagjöld hátt í þrefölduðust í yfir 100 milljónir, en hlutdeild í afkomu Verkfærasölunnar og 45 milljóna gengishagnaður vógu þar á móti. Fjármagnsliðir urðu því jákvæðir um 56 milljónir sem var ríflega 80 milljóna viðsnúningur frá fyrra ári.
Efnahagsreikningurinn tvöfaldaðist en eiginfjárhlutfall dróst saman
Heildareignir félagsins námu 3,4 milljörðum í lok árs og höfðu rétt tæplega tvöfaldast á árinu, en 1.230 milljóna króna bókfært virði Verkfærasölunnar vegur þar þyngst þótt birgðir og viðskiptakröfur hafi einnig vaxið nokkuð duglega, um 28% samanlagt og námu 1,9 milljörðum sín á milli í árslok 2022.
Eigið fé jókst einnig verulega, en þó nokkru minna en eignirnar, eða um 58%, og nám tæpum 800 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall féll þar af leiðandi um 5 prósentustig og nam 23,5%.
Greidd laun námu 413 milljónum og jukust um rúm 15% milli ára, en ársverkum fjölgaði um svo gott sem sama hlutfall og voru 39 á árinu samanborið við 34 árið áður. Meðallaun voru því óbreytt milli ára, um 880 þúsund krónur á mánuði.
Fréttin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.