Óttar telur stafræna þróun vera algjört lykilatriði fyrir Elko til að ná samkeppnisforskoti til framtíðar á Íslandi. Elko þurfi að geta selt, dreift og afhent vörur hraðar og með lægri kostnaði og betri þjónustu en samkeppnisaðilarnir. „Við opnuðum meðal annars nýja netverslun árið 2021 sem hefur fengið góðar viðtökur.“ Að sögn Óttars breyttist hegðun neytenda eðli málsins samkvæmt í heimsfaraldrinum sem endurspeglaðist í aukinni netverslun. Aukningin hafi aftur á móti ekki gengið til baka þrátt fyrir rénun heimsfaraldursins. Verslanirnar verði hins vegar áfram mikilvægur þáttur í starfseminni.
„Það er okkar trú að til framtíðar muni verslanir ekki leggja upp laupana heldur verða áfram mikilvægar, en eðli þjónustunnar sem veitt er þar muni aftur á móti breytast.“ Verslanir Elko á Akureyri og í Leifsstöð hafi nýverið fengið andlitslyftingu og ný verslun Elko í Skeifunni verði opnuð í nýju húsnæði með Krónunni í næsta mánuði.
Þá nefnir Óttar að Elko hafi opnað þjónustuver árið 2020 þar sem sérhæfðir þjónustufulltrúar starfa. Mikil ánægja hafi verið með þjónustuna. „Við mætum okkar viðskiptavinum þar sem þeir eru og svörum þeim í gegnum hvaða miðil sem er, til dæmis með tölvupósti, síma, netspjalli, snjallspjalli eða á samfélagsmiðlum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.