Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu töluvert í gær, einkum vegna lækkana á hlutabréfum tæknifyrirtækja og þá einkum gervigreindarfyrirtækja sem höfðu hækkaði umtalsvert það sem af er ári.

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu töluvert í gær, einkum vegna lækkana á hlutabréfum tæknifyrirtækja og þá einkum gervigreindarfyrirtækja sem höfðu hækkaði umtalsvert það sem af er ári.

Vísitalan S&P 500 féll um 2,3% í gær og hefur ekki lækkað meira á einum degi síðan í desember 2022. Þá lækkaði Nasdaq Composite vísitalan um 3,6% sem er mesta lækkun á einum degi frá október 2022.

Hlutabréf í Evrópu og Asíu hafa fallið í morgun eftir lækkanir gærdagsins á bandaríska markaðnum. Stoxx 600 vísitalan hefur lækkað um 1,3% það sem af er degi og japanska Topix vísitalan féll um 3%.

Meðal þeirra félaga sem leiddu lækkanir vestanhafs voru tæknifyrirtækin Nvidia, Microsoft, Apple og Tesla. Um 6,8% lækkun á gengi Nvidia hafði mestu áhrifin til lækkunar á S&P 500 vísitöluna.

Tesla lækkaði um 12,3% í gær, sem er mesta dagslækkun á hlutabréfum rafbílaframleiðandans frá árinu 2020. Tesla birti uppgjör á þriðjudagskvöld sem var undir væntingum greinenda en hagnaður félagsins á öðrum fjórðungi dróst saman um nærri helming milli ára.

Hlutabréfaverð Alphabet, móðurfélag Google, féll um 5% þrátt fyrir að hafa birt uppgjör sem var lítillega umfram væntingar greiningaraðila. Auglýsingatekjur YouTube voru hins vegar undir spám.