Fréttamiðillinn New York Times birti í gær lista yfir 52 staði sem blaðið mælir með að lesendur heimsæki á þessu ári og voru Vestmannaeyjar meðal áfangastaðanna. Blaðið heldur því meðal annars fram að Vestmannaeyjar hafi verið kallaðar matarhöfuðborg Íslands.

Berglind Sigmarsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum, segir Eyjamenn vera í skýjunum yfir því að hafa ratað inn á þennan lista og hefur þetta gríðarlega mikið að segja.

„Við erum búin að vera vinna í því í nokkur ár að stækka ferðamannatímann hjá okkur með alls konar viðburðum eins og Matey og fleiri viðburðum. Þannig þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur.“

Hún segir Vestmannaeyjar hafa mikið upp á að bjóða bæði hvað varðar afþreyingu og veitingastaði en Vestmannaeyjar hlutu meðal annars tilnefningu til Embla Food Awards árið 2021 sem besti mataráfangastaður.

„Við erum náttúrulega rétt fyrir utan Gullna hringinn og fólk hefur soldið verið að keyra fram hjá okkur en við vonum núna að það fari að kíkja yfir á leiðinni á Jökulsárslón. Hér er gríðarlega mikil saga en það var til dæmis byggt flott safn í kringum eldgosið 1973, Eldheimar, sem hefur líka fengið verðlaun, þannig þetta er bara önnur fjöður í sama hatt.“

Berglind segir að margir eigi það til að heimsækja Vestmannaeyjar í einn dag en átti sig svo á því að það hefði í raun þurft að gefa sér lengri tíma til að upplifa allt sem er í boði.

„Þú færð líka svo margt hérna á sama punktinum og þarft ekki að vera á bíl. Þú hefur svarta strönd, þú hefur eldfjall, þú hefur góða veitingastaði, þú hefur brugghús og frábær bakarí. Svo nýlega hefur bæst við mikið af góðri lúxusgistingu. Það vantar bara foss, en við erum bara aðeins að vinna í því.“