Kon­ráð S. Guðjónsson, ­hag­fræðingur Arion Banka, telur ­lík­legt að peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands muni hækka stýri­vexti við næstu vaxta­á­kvörðun 23. ágúst, þrátt fyrir mikla lækkun á árs­verð­bólgu.

Jákvæð teikn á lofti næstu vikur gætu þó valdið því að hækkunin verði minni en áður.

Árs­verð­bólgan hjaðnaði þriðja mánuðinn í röð og lækkaði úr 8,9% í 7,6% í júlí. Vísi­tala neyslu­verðs stóð næstum í stað eða hækkaði um 0,03% milli mánaða.

„Ég á alveg eins von á því að við munum sjá verð­bólgu­taktinn hækka í ein­hverja mánuði það sem eftir lifi árs og að þetta komi niður með rykkjum,“ segir Kon­ráð.

Verð­bólgu­spár bankanna gerðu ráð fyrir mikilli lækkun í júlí en júlí­mælingin í fyrra ýtti verð­bólgunni veru­lega upp. Vísi­tala í­búðar­verðs mælist á þriggja mánaða tíma­bili og datt mars­mánuður út en mikið líf var á í­búða­markaði í mars.

„Ég held það sé alltaf mikil­vægt að hrósa öllum sigrum þó þeir séu litlir en það er alveg rétt að það sem knýr þetta á­fram er hvað er það var mikil hækkun á sama tíma í fyrra,“ segir Kon­ráð.

Enn töluverður verðbólguþrýstingur

Konráð segir að hækkanirnar frá og með ágúst í fyrra voru frekar litlar og mun það hafa á­hrif á komandi mánuðum. Þá séu einnig ýmsir liðir í ársverðbólgunni of háir.

„Það eru enn liðir þarna eins og hótel og veitinga­staðir sem eru að hækka tölu­vert. Önnur þjónustu og hinir ýmsu liðir, sem flokkast ekki undir þessa hefð­bundnu liði, eru einnig að hækka tölu­vert. Þannig það er enn þá tölu­verður verð­bólgu­þrýstingur,“ segir Kon­ráð.

Hann bendir á að ef verð­bólgan væri við verð­bólgu­mark­mið seðla­bankans væri vísi­tala neyslu­verð að lækka í júlí en í staðinn stendur nánast í stað.

„En þetta er að þróast í rétta átt og það er mjög á­nægju­legt,“ segir Konráð.

Enn mánuður í vaxtaákvörðun

Spurður um hvort þetta þrýsti á peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans til að halda vöxtum ó­breyttum í ágúst, segir hann það ó­lík­legt.

„Ég á von á því að þau muni hækka vexti en hins vegar ef verð­bólgu­takturinn er að koma svona niður og það eru ýmis já­kvæð teikn á lofti þá munu þau taka minni skref en síðustu skipti,“ segir Kon­ráð sem setur þó fyrir­vara á hvaða tölur munu koma fram fyrir vaxta­á­kvörðun.