Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Arion Banka, telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni hækka stýrivexti við næstu vaxtaákvörðun 23. ágúst, þrátt fyrir mikla lækkun á ársverðbólgu.
Jákvæð teikn á lofti næstu vikur gætu þó valdið því að hækkunin verði minni en áður.
Ársverðbólgan hjaðnaði þriðja mánuðinn í röð og lækkaði úr 8,9% í 7,6% í júlí. Vísitala neysluverðs stóð næstum í stað eða hækkaði um 0,03% milli mánaða.
„Ég á alveg eins von á því að við munum sjá verðbólgutaktinn hækka í einhverja mánuði það sem eftir lifi árs og að þetta komi niður með rykkjum,“ segir Konráð.
Verðbólguspár bankanna gerðu ráð fyrir mikilli lækkun í júlí en júlímælingin í fyrra ýtti verðbólgunni verulega upp. Vísitala íbúðarverðs mælist á þriggja mánaða tímabili og datt marsmánuður út en mikið líf var á íbúðamarkaði í mars.
„Ég held það sé alltaf mikilvægt að hrósa öllum sigrum þó þeir séu litlir en það er alveg rétt að það sem knýr þetta áfram er hvað er það var mikil hækkun á sama tíma í fyrra,“ segir Konráð.
Enn töluverður verðbólguþrýstingur
Konráð segir að hækkanirnar frá og með ágúst í fyrra voru frekar litlar og mun það hafa áhrif á komandi mánuðum. Þá séu einnig ýmsir liðir í ársverðbólgunni of háir.
„Það eru enn liðir þarna eins og hótel og veitingastaðir sem eru að hækka töluvert. Önnur þjónustu og hinir ýmsu liðir, sem flokkast ekki undir þessa hefðbundnu liði, eru einnig að hækka töluvert. Þannig það er enn þá töluverður verðbólguþrýstingur,“ segir Konráð.
Hann bendir á að ef verðbólgan væri við verðbólgumarkmið seðlabankans væri vísitala neysluverð að lækka í júlí en í staðinn stendur nánast í stað.
„En þetta er að þróast í rétta átt og það er mjög ánægjulegt,“ segir Konráð.
Enn mánuður í vaxtaákvörðun
Spurður um hvort þetta þrýsti á peningastefnunefnd Seðlabankans til að halda vöxtum óbreyttum í ágúst, segir hann það ólíklegt.
„Ég á von á því að þau muni hækka vexti en hins vegar ef verðbólgutakturinn er að koma svona niður og það eru ýmis jákvæð teikn á lofti þá munu þau taka minni skref en síðustu skipti,“ segir Konráð sem setur þó fyrirvara á hvaða tölur munu koma fram fyrir vaxtaákvörðun.