Heildarútflutningstekjur fyrsta ársfjórðungs námu 355,6 milljörðum króna og jukust um 57% miðað við sama tímabili í fyrra, það gerir ársfjórðunginn að stærsta fyrsta ársfjórðungi frá upphafi. Aukinn ferðamannafjöldi, miklar loðnuveiðar og mikil hækkun álverðs skýrir hækkun útflutningsverðmætanna og munar þar mestu um hækkun álverðs.
Tekjur af útflutningi iðnaðarvara, sem samanstendur að mestu af kísilmálmum og áli, námu tæplega 133 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, eða 37% af heildarútflutningi, og hafa aldrei verið meiri. Útflutningur sjávarafurða jókst um 28% og var 86 milljarðar á fjórðungnum, en mikil loðnuveiði ásamt áframhaldandi vöxtur í fiskeldi skýrir aukninguna. Eldisafurðir eru orðnar 15% af útflutningi á sjávarafurðum, en verð á laxi hefur hækkað mikið á þessu ári. Tekjur af ferðaþjónustu rúmlega sexfölduðust og námu 52 milljörðum króna
Þrátt fyrir þennan mikla útflutningsvöxt var 50 milljarða króna halli á viðskiptajöfnuði á fyrsta ársfjórðungi sem er 27 milljörðum meiri halli en á sama fjórðungi í fyrra. Hallinn skýrist að mestu leyti af neikvæðum frumþáttatekjum upp á 28,5 milljarða króna, en bætt afkoma fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu, eins og til dæmis álverin, draga úr frumþáttatekjum.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.