Fjártæknifyrirtækið Monerium kynnti sína fyrstu vöru – rafrænar evrur á bálkakeðjum – síðasta sumar eftir mikla þróunarvinnu. Það vildi svo til að eftir tímabil afar lágra vaxta í heimsfaraldrinum sem var mjög letjandi til útgáfu rafeyris var heimshagkerfið loks farið að taka við sér og vextir farnir að hækka.
„Það hitti svo vel á að við vorum loks tilbúnir að hefja útgáfu akkúrat um það leyti sem faraldrinum lauk og vaxtastig fór að komast í eðlilegra horf,“ segir Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Monerium.
Það má því segja að viðskiptalíkanið hafi hrokkið í gang á ný á hárréttum tíma, þar sem tekjugrunnur Monerium í dag eru vextir af þeim fjármunum sem félagið varslar fyrir hönd viðskiptavina sinna – handhafa hins nýstárlega rafeyris – sem tryggingu fyrir seljanleika hans og verðgildi.
Hin tekjustoðin sem lagt var upp með eru færslu- og þjónustugjöld. Ekkert hefur enn verið ákveðið um útfærslu þeirra, en hún mun meðal annars ráðast af eftirspurn eftir einstökum þjónustuþáttum.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 4. maí.