Aventuraholidays ehf. félag utan um ferðaskrifstofuna Aventura, sem er í eigu Andra Más Ingólfssonar, hagnaðist um 3,4 milljónir króna á síðasta ári. Árið áður, sem var fyrsta starfsár félagsins, tapaði það 14,4 milljónum króna.
Tekjur síðasta árs námu 399 milljónum króna og jukust verulega milli ára þar sem tekjur ársins 2020 námu einungis 17 milljónum króna. Eignir félagsins námu 89 milljónum króna í lok árs 2021, en ári áður námu eignir 23 milljónum króna.
Skuldir námu 100 milljónum króna, en þar af voru 30 milljónir króna víkjandi lán frá eigandanum Andra Má. Eigið fé, með víkjandi láni frá eiganda, nam rúmlega 19 milljónum króna um síðustu áramót og var eiginfjárhlutfall 22%. Handbært fé í upphafi ársins 2021 nam 8 milljónum króna en í lok þess var handbært fé 17 milljónir króna.
Starfsemi í Danmörku og Finnlandi
Í ársreikningi kemur fram að Aventuraholidays hafi stofnað dótturfélagið Aventurarejser ApS í Danmörku og fengið ferðaskrifstofuleyfi þar. Jafnframt hafi félagið hafið starfsemi í Finnlandi en hún farið hægt af stað vegna heimsfaraldursins.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.