Rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði hagnaðist um 173 milljónir króna árið 2021. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Til samanburðar tapaði vinnslan 195 milljónum árið 2020 og er því um mikinn viðsnúning að ræða á milli ára. Langstærsti hluti framleiðslu Kampa er seldur til Englands í breskum pundum.

Tekjur félagsins drógust saman um 67% á milli ára og námu 876 milljónum árið 2021. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 315 milljónum króna en stöðugildi voru að meðaltali 33 á árinu. Eignir félagsins námu 577 milljónum króna á árinu.

Eigið fé félagsins var jákvætt um 46 milljónir í árslok 2021 og skuldir voru 531 milljónir, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins. Því var eiginfjárhlutfall félagsins 8% í árslok. Í upphafi og lok árs voru 8 hluthafar í félaginu. Þar af átti Birnir ehf, félag í meirihlutaeigu Jóns Kristins Guðbjartssonar stjórnarformanns Kampa, 70% hlut.

Félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar í janúar 2021 og heimild til að leita nauðasamninga í ágúst 2021. Lánadrottnar félagsins samþykktu nauðasamning í október 2021 sem fól í sér niðurfellingu á 70% af lýstum kröfum, eða sem nemur 257 milljónum króna.

Kampi tók 200 milljón króna lán á árinu til að standa við efndir nauðasamninga og greiðslu krafna sem féllu utan við nauðasamninga. Í ársreikningi segir að unnið sé að því að afla nýs hlutafjár til að styrkja enn frekar fjárhagsstöðu félagsins.

Sjá einnig: Bókhald Kampa „byggt á skáldskap“

Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Kampa, lýsti því í samtali við Morgunblaðið í byrjun árs 2021 eftir að Kampa fór í greiðslustöðvun að bókhald fyrirtækisins hafi „byggst á skáldskap í allt of langan tíma“ og að ársreikningar hafi því ekki gefið rétta mynd af fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Var annar af tveimur verklegum stjórnendum Kampa talinn hafa staðið þar að baki og var honum sagt upp störfum og vísað úr stjórn félagsins.

„Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um,“ hafði Morgunblaðið eftir Jóni í janúar 2021. Kampi kærði athæfi starfsmannsins fyrrverandi til lögreglunnar.