Virði frumútboða í Bandaríkjunum og Evrópu hefur fallið um 90% á árinu samferða aukinni verðbólgu og hækkandi stýrivöxtum. Staðan hefur neytt félög til að leggja áform um skráningu á markað til hliðar.
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hafa 157 félög skráð sig á markað en á sama tímabili í fyrra voru þau 628 og virði skráninganna fallið úr rúmlega 25 þúsund milljörðum íslenskra króna niður í rúmlega 2 þúsund milljarða króna.
Á sama tíma hefur virði frumútboða alþjóðlega lækkað um 71% - úr tæplega 37 þúsund milljörðum íslenskra króna, með skráningu 1,237 félaga, niður í rúmlega 10 þúsund milljarða, með skráningu 596 félaga.
Martin Glass, eigandi á lögfræðistofunni Jenner & Block, sem sérhæfir sig í fumútboðum, sagði í samtali við FinancialTimes að hann teldi að markaðurinn myndi taka við sér aftur þegar meiri stöðugleiki næðist. Félögin séu ekki að hætta við skráningu heldur að leggja áformin tímabundið til hliðar.
Glass bætti því einnig við að bandaríski markaðurinn hefði orðið fyrir sérstaklega miklum áhrifum vegna hruns í skráningu sérstakra yfirtökufélaga, sem safni fé áður en ljóst er hvaða félag eigi að skrá á markað. Síðastliðin tvö ár hafi slíkt form skráninga verið mjög algengt en dregið hafi töluvert úr vinsældum þess eftir slakt gengi félaga, aukins eftirlits og minni áhuga banka á slíkum skráningum.