Kaup og sala á útgerðarfyrirtækjum hefur verið umfangsmikil síðustu ár. Í fyrra var greint frá kaupum Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé Vísis í Grindavík, sem þá var í eigu sex systkina en faðir þeirra stofnaði fyrirtækið árið 1965. Uppgefið kaupverð hlutafjár var tuttugu milljarðar króna.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, var með ríflega fjóra milljarða króna í fjármagnstekjur í fyrra en hann átti stærstan hlut í fyrirtækinu. Svanhvít Daðey Pálsdóttir, Margrét Pálsdóttir og Páll Jóhann Pálsson auk eiginmanna Kristínar E. Pálsdóttur og  Sólnýjar Pálsdóttur voru öll með um 3,2 milljarða í tekjur.

Heildarfjármagnstekjur 150 efstu á listanum námu tæplega 69 milljörðum króna árið 2022, þar af var hátt í þriðjungur frá Vísisfjölskyldunni.

Fjármagnstekjur fjölskyldunnar:

  1. Pétur Hafsteinn Pálsson, frkvstj. Vísis - 4.063 m.kr.
  2. Ágúst Þór Ingólfsson, stjórnandi hjá Vísi og eiginmaður Kristínar E. Pálsdóttur - 3.217 m.kr.
  3. Margrét Pálsdóttir, fv. eigandi í Vísi - 3.216 m.kr.
  4. Sveinn Ari Guðjónsson, stjórnandi hjá Vísi og eiginmaður Sólnýjar Pálsdóttur - 3.216 m.kr.
  5. Svanhvít Daðey Pálsdóttir, fv. eigandi í Vísi - 3.215 m.kr.
  6. Páll Jóhann Pálsson fv. alþingismaður og eigandi í Vísi - 3.176 m.kr.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.

Listi yfir þá 150 einstaklinga sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar í fyrra birtist í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið klukkan 19:30 í kvöld hér.