Áfrýjunardómstóll í New York hefur ógilt dóm alríkisundirrétar sem kvað á um að vogunarsjóðir mættu halda ríflega 500 milljónum dala, eða sem nemur 77 milljörðum króna á gengi dagsins, sem bandaríski bankinn Citigroup millifærði á þá fyrir mistök í fyrra. Financial Times greinir frá.

Starfsfólk í lánadeild Citi millifærði fyrir mistök 900 milljónir dala eða um 126 milljarða króna á lánardrottna snyrtivörufyrirtækisins Revlon, sem stóð illa fjárhagslega. Bankinn hafði hafa ætlað að millifæra undir 8 milljónir dala á sjóðina vegna vaxtagreiðslna.

Sjá einnig: Citigroup millifærði óvart 122 milljarða

Hópur af sjóðum sem tóku við ríflega hálfum milljarði dala frá Citi neituðu að skila fjármunum til bankans. Alríkisundirréttur dæmdi vogunarsjóðunum í hag á síðasta ár en dómarinn taldi sig vera bundinn af dómafordæmi og að lögin leyfðu lánardrottnum að halda peningnum sem voru millifærðir fyrir slysni ef þeir greiða af láninu, ef viðtakandinn vissi ekki af mistökunum og ef viðtakandinn plataði ekki mótaðilann til að millifæra peninginn.

Áfrýjunardómstóllinn hafnaði röksemd alríkisundirréttarins í gær og gerði honum að taka málið aftur með hliðsjón af leiðsögn sinni.

Óvissa um 900 milljóna dala greiðsluna hefur sett mark sitt á snyrtivörufyrirtækið Revlon sem lýsti sig gjaldþrota í júní síðastliðnum. Fyrirtækið tjáði skiptarétti að tilraunir sínar til að sækja fjármagn hafi gengið erfiðlega sökum þess að illa gekk að bera auðkenna alla lánardrottnana vegna framangreinds málaferli.